Contents

Samsláttur Hönnu Birnu

Contents

Það er algengt í stjórnmálum að tvennu sé slegið saman - einu góðu, og einu slæmu - í þeim tilgangi að rugla alla umræðu, afvegaleiða skynsama hugsun, og flækja mál. Stundum, en þó ekki alltaf, kemur slíkur samsláttur til af því að þeir sem að samslættinum stóðu gerðu sér ekki grein fyrir því að um tvennt aðskilið væri að ræða. Ég veit ekki hvort um vísvitandi verk eða slys hafi verið að ræða í tilfelli margrædda frumvarpsins hennar Hönnu Birnu, en mér var kennt að ég ætti aldrei að gruna fólk um illsku þegar heimska er fullnægjandi skýring.

Frumvarpið sem um ræðir inniheldur ekki nema þrjár greinar. Sú þriðja er formsatriði varðandi gildistöku, og eru því greinarnar í raun tvær sem skipta máli. Það sem frumvarpið /gerir/ er líka tvennt - en þó ekki þannig að það sé hægt að segja að önnur greinin geri eitt og hin greinin annað. Sjáið til:

Fyrsta greinin bætir eingöngu einu orði við upptalningu: orðið “kynvitund” er skeytt inn í 180. grein almennu hegningarlaganna á eftir orðinu “kynhneigð”. Þetta er gert vegna þess að þrátt fyrir að allir eigi að njóta verndar í öllu samkvæmt lögum, þá virðast lögskýrendur hafa einstakt lag á því að túlka “allir” og “allt” á hátt sem nær ekki yfir allt, og því hefur myndast hefð í kringum það að telja til þau atriði sem við viljum alls ekki að þau undanskilji þegar mikið liggur við. Það er bæði sjálfsagt og gott að bæta kynvitund þar inní - þó fyrr hefði verið.

/[Athugasemd bætt við korteri seinna: Már Örlygsson benti mér réttilega á að stóra breytingin sem 2. greinin leggur til felst í málfarsmuninum á “hæðist að” og “ræðst að með háði”. Það er rétt hjá honum - ég er greinilega farinn að ryðga í íslenskunni á því að vera svona lengi í útlandinu. Þessi málfarsmunur er einn og sér nægur til að réttlæta allar breytingarnar sem ég legg til fyrir neðan…]/

Þá er það önnur greinin. Annars vegar skeytir hún sama orðinu, “kynvitund” inn í 233. gr. a., í lögunum - sem er stórfínt með nákvæmlega sömu rökum: það að lögskýrendum er ekki treystandi til að skilja hugtakið “allir”. Gott og vel. Hinsvegar, sem er verra, skiptir greinin út orðunum:

“Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” fyrir orðin:

“Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” Þar sem enginn ágreiningur ríkir um upptalninguna ætla ég að taka upptalninguna út í hvoru tilvikinu fyrir sig:

“Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna [UPPTALNING] sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” “Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna [UPPTALNING], eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” Skoðum nú hver munurinn er með því að feitletra og undirstrika öll mikilvægu orðin í nýju útgáfu greinarinnar sem koma ekki fram í núverandi grein:

“Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum (1) eða annars konar tjáningu (2), svo sem með myndum eða táknum (3), vegna [UPPTALNING], eða breiðir slíkt út (4), skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” Fyrir utan þessi fjögur atriði, sem eru ný, stendur allt sem var í upprunalegu greininni eftir með hér um bil sömu merkingu, þó röðin sé aðeins önnur. Athugið að öll greinin á við um öll atriðin í upptalningunni, ekki bara kynvitundinni. Það er að segja, þetta snýst ekki um kynvitund lengur - enda hefur nákvæmlega enginn lýst andstöðu við því að bæta kynvitund við í upptalningunni.

Veltum nú fyrir okkur hvað felst í þessum fjórum atriðum.

“Ummæli” eru orð sem eru sögð eða skrifuð. Ummæli eru vernduð sem hluti af tjáningarfrelsi, enda hafa vestræn samfélög orðið að læra mjög erfiðar lexíur um hvað gerist þegar ákveðin ummæli eru bönnuð. Ef þið munið, fyrir svona tíu árum, þegar það komst í tísku um tíma að tala um að hlutir væru “gay”, eins og það væri á einhvern hátt slæmt, þá vitið þið að a) oft myndast málhefðir í samfélaginu sem eru ekki byggðar á upplýstri afstöðu fólks, og b) oft notar fólk orð á hátt sem gæti hugsanlega verið móðgandi eða háðugt án þess að það sé ætlunin. Það sem meira er: samfélagið okkar hefur þróast frá notkun orða á þennan hátt ekki með boðum og bönnum, heldur einmitt með upplýstri umræðu og gagnrýni. Ef ákveðnar tegundir ummæla eru bannaðar þá er hætt því því að gagnrýni á það sem er slæmt í samfélaginu verði óvart útrýmt í leiðinni.

“Annars konar tjáning” er gríðarlega víðfemt, og getur falið í sér allt frá leiklist, kvikmyndum og skáldsagnarskrifum að ljósmyndum, gagnagrunnum, myndskreytingum, og svo framvegis. Þetta myndi þýða að bækur á borð við Tinni í Kongó eftir Georges “Herge” Remi, Narníubækurnar eftir C.S. Lewis, og bókin Enders Games eftir Orson Scott Card, sem nú hefur verið gerð kvikmynd eftir, ættu allar að teljast ólöglegar. Í rauninni nær þetta lengra en bækur: ef einhver gæti hugsanlega móðgast á grundvelli upptalningarinnar yfir hvaða menningarverki sem er, þá myndi það teljast lögbrot samkvæmt þessari nýju grein.

“Að breiða slíkt út” tek ég fyrir á undan táknunum, því hér kemur fjölmiðlun við sögu. Oft er það gert með vondum hug að breiða út háð og róg, en í mörgum tilfellum er það breitt út með það að markmiði að draga athygli að kjánaskap þeirra sem bjuggu róginn til eða hófu háðið. Þótt heiðvirður dómsstóll myndi nú aldrei taka sér það fyrir hendi að túlka svona lög á hátt sem kæmu illa niður á fjölmiðlum, þá hafa dómar í meiðyrðamálum undanfarin ár sýnt að ef til vill eru heiðvirðir dómsstólar ekki jafn algengir og við vildum.

“Myndir eða tákn” eru enn ein útvíkkunin á þessu. Tákn eru notuð mjög víða í samfélaginu, og hafa djúpan sess í huga okkar allra - hvort sem það eru (haka)krossar utan á byggingum, gulir þríhyrningar með rauðum ramma á götuhornum, eða blá doppa á krana, þá eru merkingar af öllum toga allsstaðar í kringum okkur, og þær upplýsa okkur á ótal vegu um hvað megi þar finna. Sum tákn merkja góða hluti í okkar huga, sum tákn merkja vonda hluti. En mjög mörg tákn eru merkingarbær. Þá er spurningin: Segjum sem svo að stofnaður yrði félagsskapur fólks á Íslandi sem héldi því fram að íslenska væri eina rétta tungumálið og að öll önnur tungumál væru óæðri, sem og fólkið sem þau mál tala. Hér væri greinilega um að ræða þjóðrembingslega hreintungustefnu sem ætti undir niðri ýmislegt skylt við nasisma, enda væri þjóðerni flestra einmitt ástæða smánunar hér. En gott og vel. Segjum nú sem svo að þessi félagsskapur býr sér til merki: fálki við bláan himinn, svona voðalega íslenskt eitthvað. Þetta merki er notað í fréttum um þennan hóp (úbbs - útbreiðsla! Þá er vont að starfa hjá fjölmiðli!) og fólk fer að tengja fálkann góða við smánun á til að mynda Bretum, sem tala að öllu jöfnu ekki íslensku, og eru því augljóslega óæðri kynstofn. Þá allt í einu skapast það vandamál að fálkatáknið á bláa grunninum verður ólöglegt. Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn þá?!

Vandamálin við 2. grein þessa frumvarps eru ótrúlega mörg, og þau koma öll til af því að verið er að reyna að setja upp girðingar í kringum það hvernig fólk talar - og þar með, hvernig fólk hugsar. Reynslan hefur þó sýnt að besta leiðin til að skapa réttlátt samfélag, laust við róg, háð, smánun eða ógnir, er ekki að reyna að banna og refsa, heldur að upplýsa. Það er vissulega erfiðara að upplýsa fólk en að slengja því bara í steininn, en sem betur fer höfum við undanfarið ekki miklað það of mikið fyrir okkur að útskýra fyrir náunganum að það sé frekar fáranlegt að hafa skoðanir sem byggjast á ótta og fávísi.

Góðu fréttirnar eru að það er rosalega auðvelt að laga 2. gr. frumvarpsins þannig að enginn muni finna neitt athugavert við það. Skoðum 1. gr. aðeins aftur:

  1. gr. Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Tillaga mín að því hvernig mætti breyta 2. grein þannig að hún gerði góðar og uppbyggilegar breytingar á 233. gr. a. væri:

  2. gr. Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 233. gr. a laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Einfalt, ekki satt?

Það er mjög mikilvægt að við gerum skýran greinarmun á því sem er gott og því sem er slæmt í svona frumvörpum. Ég vona að þeir taki það til sín sem hafa orðið fyrir því óláni að bíta samslátturinn í sig eins og um eitt hreint og ósmættanlegt mál væri að ræða.

Eitt að lokum:

Það er algjör tímaskekkja að hægt sé að fangelsa fólk fyrir skoðanir sínar. Sektir, kannski, hugsanlega. Bætur þá helst til þeirra sem hafa þurft að þola ósanngjörn ummæli, en samt ekki refsikenndar bætur, enda er slíkt barbaraháttur. Það merkilega við þetta frumvarp er að Hanna Birna bjó það ekki til - ráðherrar semja sjaldnast frumvörpin sín sjálf, þau panta bara frumvörpin frá starfsfólki sínu eða nefndum, og samþykkja svo að flytja þau ef þau eru nægilega góð. Hanna Birna er greinilega á því að það sé fínt að hefta tjáningarfrelsi fólks, en það er eitthvað skrýtið við það að nefndin sem bjó til þetta frumvarp hefur haft til umræðu að flytja meiðyrðalöggjöfina - sem þetta fellur jú undir - úr refsirétti, að tillögu Evrópuráðs m.a., yfir í skaðabótarétt. Hvers vegna er þá verið að gera þetta núna?

Kannski væri ágætis byrjun í því verki að bæta við nýrri 3. gr. við frumvarpið hennar Hönnu Birnu, sem orðast þá einhvernvegin svona:

  1. gr. a) orðin “eða fangelsi allt að 2 árum” í 233. gr., 233. gr a, 233. gr. b og 2. mgr. 236. gr. falla niður. b) orðin “eða fangelsi allt að 1 ári” í 234. gr. og 235. gr. falla niður. c) í stað orðanna “fangelsi allt að 2 árum” í 1. mgr. 236. gr. komur orðið “sektum.” Þá erum við sko farin að tala um gott frumvarp!