Contents

Samspil Rauða krossins við ríkið

Contents

Fyrir tæpri öld síðan tíðkaðist að skilgreina fasisma sem fullkomið samband fyrirtækja og ríkisins. Sú var hugmyndin, að ríkið myndi veita ákveðnum og sérútvöldum fyrirtækjum fríðindi og fyrirtækin myndu styðja við ríkið í gegnum súrt og sætt. Þetta er mjög algengt á Íslandi og reyndar víðast hvar í heiminum í dag. Þótt flestir tengi fasisma e.t.v. við fjöldamorð eða álíka verður að muna að fasismi er fyrst og fremst eitt form stjórnkerfis, þar sem ríki og fyrirtæki eru álitin mikilvægari en fólk.

Fríðindin koma í ýmsum stærðum og gerðum, t.d. einkaleyfi, nýtingarréttur á auðlindum, höfundarréttur, styrkir, innkaupasamningar, og fleira. Sum fríðindin eru ekki jafn augljós og bein, til dæmis að utanríkisþjónustan eða forsetinn tali fyrir hönd fyrirtækja erlendis. Eða einfaldlega að fyrirtæki hafi greiðan aðgang að stjórnmálamönnum eða stjórnsýslunni til að leysa úr vandamálum þess.

Ekkert af þessu hefur hlotið viðurnefnið ‘spilling’ í daglegu tali. Þetta þykir svo sjálfsagt að mikið af þessu er bundið í landslög eða alþjóðalög og varið sem sjálfsögð mannréttindi. Til að mynda má nefna að á Íslandi eru Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins með lögskipuð fríðindi. Á alþjóðavísu má nefna Parísarsáttmálann um einkaleyfi, Bernarsáttmálann og TRIPS samninginn um höfundarrétt, og jafnvel sjálfan Genfarsáttmálann.

Ha, Genfarsáttmálann?

Jú, sjáiði til. Það eru ekki öll fyrirtæki byggð upp sem fyrirtæki - Betra orð vantar til að lýsa hópi einstaklinga með sameiginleg markmið, sem beita sér sem ein heild. Stofnun, félag, hreyfing, bla bla bla. Fyrirtæki dugar. Eitt slíkt fyrirtæki hefur áunnið sér sess í alþjóðasamfélaginu fyrir mikilvæg og góð störf í þágu mannkyns í um 150 ár, en ólíkt öllum öðrum slíkum fyrirtækjum hafa verið skrifaðir ýmsir viðaukar við Genfarsáttmálann og önnur alþjóðalög til að treysta og tryggja tilverurétt þess.

Fyrir vikið er samband Rauða krossins við ríki heimsins mjög sterkt. Það verður að vera það, því þeirra staða reiðir sig beinlínis á áframhaldandi stuðning þjóðríkja við sig. Á heimsvísu fer þetta fram í gegnum ICRC, en innan einstakra ríkja - t.d. á Íslandi - er sambandinu viðhaldið í gegnum stjórnsýsluna og stjórnkerfið, í gegnum mikilvæga vinnu Rauða krossins í ýmsum málaflokkum. Þar má nefna málefni fíkla, heimilislausra, hælisleitenda, ásamt þróunaraðstoð erlendis og neyðaraðstoð þegar náttúruhamfarir, stríð og fleira eiga sér stað.

Athugið að ég er ekki að gagnrýna þá vinnu sem Rauði krossinn vinnur. Þar er mikið, merkilegt og oft þakkarlaust starf unnið og væri heimurinn verri ef sú vinna væri ekki unnin.

Það sem ég er að gagnrýna er að eðli sambandsins við ríkið þýðir að það er oft sem Rauði krossinn þarf að fara mjög varlega í alla gagnrýni. Hún þarf að gerast bak við luktar dyr og án þess að almenningur viti af. Ekkert má gera sem ógnar sambandi fyrirtækisins við ríkið.

Þetta er ekki bara vegna Genfarsáttmálans, auðvitað. Á Íslandi er Rauði krossinn með ýmiskonar ábyrgðarhlutverk, sem oft eru sett fram í formi samninga við ríki eða sveitarfélög. Traust, trúverðugleiki og trúnaður verður að ríkja til þess að þetta gangi upp. Þótt Rauði krossinn sé alls ekki stór vildarþegi ríkisfríðinda miðað við sum fyrirtæki - til dæmis vopnaiðnaðurinn, námuðinaðurinn og á Íslandi, fiskiðnaðurinn og áliðnaðurinn - þá er hann samt hluti af þessu spillingarmynstri sem undirbyggir samfélagið. Samtrygging veldur gríðarlegri meðvirkni og hefur kælingaráhrif á gagnrýni.

Trúnaðinn viðheldur Rauði krossinn til að mynda með sinni opinberu stefnu á heimsvísu, að gefa aldrei út skýrslur. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að oft er Rauði krossinn að gera úttektir á útbúnaði fólks, til að mynda heimilislausra, hælisleitenda, flóttamanna og annarra, sem móttakendur innan ríkja geta þá hundsað í sinni fullvissu um að þær skýrslur muni aldrei koma fyrir almannasjónir.

Í stuttu máli gerir samstarf Rauða krossins við ríkið Rauða krossinum ókleift að gagnrýna ríkið. Sama gildir um ýmis önnur fyrirtæki - það er trúnaðarsambandið sem undirstrikar það form spillingar sem hefur verið kallað róttæk einokun. Það sem er sérkennilegt er að þetta heldur áfram að vera satt, jafnvel þegar ríkið ásakar Rauða krossinn um mannréttindabrot, sem eru einu sakirnar sem Rauði krossinn hefur alls ekki efni á því að láta bera á sig.

Það sem gerðist á síðustu sólarhringum var sérkennilegt. Innanríkisráðherra Íslands ýjaði að því að Rauði krossinn kunni alveg eins að hafa lekið persónulegum gögnum um Tony Omos í fjölmiðla, sem er mannréttindabrot, hreint og klárt. En samkvæmt fréttum hafði þá þegar komið fram að aðrar stofnanir sem hún hafði bent á hafi ekki haft umrætt minnisblað í sínum skjölum. Hanna Birna bauð ekki upp á neinar sannanir fyrir þessu, á hvorn veginn sem er, né hefur hún nokkuð gert til að sætta þetta mál.

Rauði krossinn getur ekkert sagt við þessu. Einhverjir hafa sagt að það sé vegna þess að þau vinna eftir strangri hlutleysisstefnu, en sú skýring er ekki alveg fullnægjandi í þessu tilfelli. Annars vegar vegna þess að verið er að ásaka Rauða krossinn um mannréttindabrot og jafnvel innan marka hlutleysisins hlýtur að vera til svigrúm til að verjast ásökunum af því tagi, og hinsvegar vegna þess að Rauði krossinn bregst við “óheppilegum” (en fullkomnlega réttmætum) athugasemdum starfsmanns síns með því að gagnrýna fjölmiðilinn sem birtir þau. Varla getur það talist mjög hlutlaust.

Ég öfunda Rauða krossinn ekki af þessari stöðu. Hér eru þau fórnarlamb þess að innanríkisráðherra gengur gegn þeim, vitandi að þau geti ekki svarað fyrir sig, í stað þess að gera það sem eðlilegt væri. Hvernig fer fyrir hjálparstofnun sem má ekki hjálpa sér sjálf?

Hvað væri eðlilegt?

Jú, þegar gögn sem eiga uppruna sinn að rekja til ráðuneytis leka í fjölmiðla, þá er eðlilegt að ráðherra meti hvort brotið sé á réttindum einstaklinga, og ef svo er, láti þá rannsaka með opinberum hætti hvaðan lekinn er uppruninn. Ef það kemur í ljós að hann er uppruninn úr ráðuneytinu, þá er það á ábyrgð ráðherrans sbr. stjórnarskrá og lög um ráðherraábyrgð. Ef lekinn kom úr stofnun sem heyrir undir ráðuneytið er það líka á ábyrgð ráðherrans. Ef hann kemur úr stofnunum sem er í samvinnu við ráðuneytið, þá ber að endurskoða þá samvinnu. Alveg sama hvernig fer, þá á opinberlega að koma fram skýrsla sem skýrir hvað átti sér stað, viðeigandi aðilar eiga að taka ábyrgð á sínum gjörðum, og það ber að taka mál þeirra einstaklinga sem urðu fyrir barðinu á alvarlegum leka persónuupplýsinga úr ráðuneytinu aftur upp til að tryggja hlutlausa og réttláta málsmeðferð þeirra.

Ráðherra á ekki að dylgja að hjálparstofnunum og Rauði krossinn á ekki að sætta sig við slíkar dylgjur. Að láta hið fullkomna samband ríkis og fyrirtækja standa í vegi fyrir réttlæti er eitt höfuðeinkenni fasísks stjórnkerfis.