Contents

Áburður á stjórnarflokkana

Contents

Undanfarnar tvær vikur hef ég setið í gamalli áburðarverksmiðju á Indlandi og fylgst með þróun atburða í íslenskri pólitík. Þetta er stór bygging, alls tíu hæðir, hátt til lofts, enda þurfti mikið pláss í byggingunni fyrir hinar ýmsu vélar og allt starfsfólk verksmiðjunnar, en þessi bygging hefur í um fjörtíu ár staðið sem mikilvægur hluti af hagkerfi þessarar borgar.

Sitjandi hér í þessari gömlu áburðarverksmiðju vakna margar spurningar um það sem er að gerast á Íslandi. Í stjórnarflokkunum á Íslandi er fólk sem vill líta á sig sem frjálslynt, sjálfstætt, opið og framsækið. Á tyllidögum talar það um alþjóðamarkaði og uppbyggingu atvinnulífsins, það talar þjálglega um mikilvægi vel launaðra starfa og menntaðs vinnuafls.

Því skýtur það skökku við að efst á baugi hjá stjórnarflokkunum er að draga Ísland út úr umræðum um útvíkkun á því alþjóðasamstarfi sem efnahagur Íslands reiðir sig á, og bjóða þess í stað áburðarverksmiðju. Talað er af miklum krafti um nauðsyn þess að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið, en þegar spurt er “nú hvað þá?” er eina tillagan frá stjórnarflokkunum gervisaur.

Mörglega er búið að kaffæra þjóðina í svo mikilli mykju undanfarnar vikur að skítalyktin sé farin að angra þau. Það gæti verið að þeim hugnist að skipta úr skít í niturdrullu og amínósýruslor, en einhver myndi heldur hætta að moka.

Á Indlandi er mikil fátækt, ríkisstjórnin hefur oft verið síður en svo farsæl, enda fjöldinn allur af ólíkum menningum, tungumálum, trúarbrögðum og öðru sem þarf að samþætta í öllu. En þó hefur verið hér gríðarlegur uppgangur undanfarin ár, með um 6% hagvöxt árlega. Sá árangur hefur náðst með því að minnka spillingu og frændhygli í stjórnkerfinu, auka alþjóðasamstarf, opna sig gagnvart erlendum mörkuðum og vera framsækin í menntun og atvinnuuppbyggingu. Sem sagt, allt það sem ríkisstjórn Íslands er að forðast.

Gamla áburðarverksmiðjan sem ég sit í er ekki áburðarverksmiðja lengur. Í þessari byggingu starfa nú 2000 manns í tæknigeiranum: hér er hugbúnaður þróaður fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims. Verðmætin sem vella út úr þessari gömlu áburðarverksmiðju eru sennilega einhver prósenta af þeim 158 milljörðum bandaríkjadollara sem heimsmarkaðurinn fyrir áburð nemur.

Íslensk pólitík er óttaleg drulla. Það er furðulegt hvernig, í hvert skipti sem óeining ríkiri um eitthvað mál, þá fara valdhafar strax í að finna leiðir til að þröngva fram sinni uppáhaldsniðurstöðu. Það einhvernvegin kemur aldrei til tals að leita ráða hjá almenningi. Það er ekki forgangsatriði að minnka spillingu, að draga úr frændhygli. Alþjóðasamstarf er álitið prump, erlendir markaðir eitthvað ofan á brauð, og eina framsóknin er sú Framsókn sem heldur aftur af þjóðinni.

Ef það er eitthvað sem Íslandi vantaði ekki, þá var það önnur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Á þau þarf engan áburð, þau bera á sig alla sök sjálf.

Horfandi á ástandið á Íslandi hugsa ég óhjákvæmilega til þess þegar ég var í þessum heimshluta í upphafi árs 2009. Þá sat ég ekki í gamalli áburðarverksmiðju, heldur í gömlu gistihúsi í Afganistan, og horfði á ríkisstjórn Íslands falla. Ég vildi gjarnan óska þess að ég væri að horfa upp á það sama núna.