Contents

Samningasjá ríkisins

Það var viðtal við Steingrím J. Sigfússon í síðustu viku sem náði athygli minni. Það er sennilega ekki fŕettnæmt, nema hvað minnst var á vonda langtímasamninga sem gerðir voru í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar, sem forsvarsmenn heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lýstu sem “myllustein um háls stofnananna”.

Fyrsta sem ég hugsaði var, “nú væri gaman að geta séð þessa samninga.” Nema hvað þeir eru hvergi aðgengilegir. Þegar ný upplýsingalög voru samin þá reyndi ég að ýta eftir því við þá sem vildu á það hlusta að það væri mikilvægt að ríkisstofnanir hefðu jákvæða upplýsingaskyldu, en ekki bara skyldu til að svara upplýsingabeiðnum. Það er að segja, að stofnanirnar ættu að birta skjöl í þeirra vörslu af fyrrabragði. Þetta var inní frumvarpinu á einhverjum tímapunkti, en var svo veikt áður en að þetta var gert að lögum.

Nú stendur furðuleg og jafnvel bjánaleg 13. grein, sem vantar allar tennur í og virðist fyrst og fremst vera einhverskonar “æji værirðu til í að” apparat. Þar segir þó meðal annars: “Stjórnvöld skulu vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Hið sama á við um gagnagrunna og skrár.”

Ég hugsaði aðeins meira um þetta, og komst að þeirri niðurstöðu að eitt af því markvissa sem stjórnvöld gætu gert væri að útbúa “samingasjá ríkisins”.

Þetta væri vefsíða þar sem allir samningar sem ríkið eða þess stofnanir hafa gert eru listaðir upp í tímalínu sem sýnir hvenær samningurinn var gerður, hvenær hann lýkur, hversu mikið hann kostar eða hvað kemur inn í tekjur vegna samningsins, og svo útlistun á helstu áhrifum. Svo auðvitað ætti að vera hægt að sjá samninginn sjálfan. Slík síða gæti leyft flokkun og síun eftir ýmsum þáttum, m.a. hver undirritaði, hvaða ráðuneyti, stofnun eða fjárlagakafla hann tilheyrir, og hverjir aðrir eru samningsaðilar.

Þetta ætti að vera tiltölulega auðvelt bæði í hönnun og smíðum. Það er tvennt sem væri flókið við þetta.

Annars vegar það að margir samningar ríkisins eru eingöngu til á pappírsformi. Það er erfitt að gera sér grein fyrir umfanginu, en það kæmi mér ekki á óvart ef aðeins um 30% samninganna væri til á tölvutæku formi. Það er samt þannig að nýrri samningar eru líklegri til að vera til á tölvutæku formi, og mætti byrja á því að setja þá samninga upp. Svo mætti nota sumarstarfsmenn (til dæmis eldri framhaldsskólanema) til að taka saman lýsigögn um aðra eldri samninga inn í gagnagrunninn, þannig að það sæist, og svo skanna inn frumskjölin. Þetta tæki svolítinn tíma, en ef byrjað er næst nútímanum og farið smám saman aftur í tímann er eflaust hægt að færa inn og skanna 5-10 ár aftur í tímann á hverju sumri, og meira eftir því sem lengra aftur er komið, enda færri og færri samningar.

Margir samninganna hafa eflaust bara sögulegt gildi. Það gæti verið gagnlegt einhverjum, en í þágu gagnsæis væri aðalatriðið að ná inn öllum gildandi samningum. Hinsvegar væri mögulega vandasamt að aðgreina gildandi frá útrunnum í fyrstu umferð, og því mögulega alveg eins gott að skanna bara allan pakkann.

Hitt sem væri erfitt er stofnanaleg tregða. 13. grein upplýsingalaga segir að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera gögn aðgengileg með rafrænum hætti. En á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá gildistöku upplýsingalaga hefur eftir því sem ég best veit akkúrat ekkert gerst. Umfangsmesta gagnabirtingin hingað til var þegar fjármálaráðuneytið undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur birti sjóðsstreymisgögn árið 2012 - áður en nýju lögin tóku gildi! Það var gott skref, en betur má ef duga skal.

Gagnsemi samningasjár

Einhverjir myndu spyrja til hvers þetta væri? Hvaða erindi ætti almenningur með að hnýsast í samninga sem stjórnvöld hafa gert við einkaaðila?

Fyrst og fremst er þetta spurning um vald. Þegar Halldór Ásgrímsson, eða hver sem er annar sem er í stöðu til að hafa áhrif á það með hvaða hætti ríkið starfar, beitir sér í trúnaðarstöðu gagnvart almenningi á hátt sem gengur gegn hagsmunum almennings, þá verður almenningur að geta orðið var við trúnaðarbrestinn. Annars er vald þess aðila of mikið, og vald almennings skert verulega. Af þessu leiðir að það er nauðsynleg og ófrávíkjanleg krafa að samningar sem ríkið gerir séu gagnsæir og opinberir, og hluti af samningsstöðu ríkisins. Einkaaðilar sem eru ekki reiðubúnir til að sætta sig við það þurfa að sætta sig við að fá þá ekki samninga við ríkið.

Gagnsemin felst þá í því að almenningur gæti veitt ríkinu aðhald og gert athugasemdir við samningagerð sem væri á einhvern hátt óeðlileg.

Að vísu fylgir þessu ákveðið lærdómstímabil. Flestir hafa, því miður, takmarkaða þekkingu á því hvað ríkið gerir. Sumir halda að þetta sé bara runa af kokkteilboðum og sjónvarpsviðtölum, en horfa algjörlega framhjá öllu umfanginu. Þegar þau heyra að eitthvað hafi kostað eitthvað margar milljónir þá er fussað og sveiað, vegna þess að flestir hafa aldrei haft svo margar milljónir og finnst þetta vera óttalegt bruðl.

Helsta ástæðan fyrir því að fólk áttar sig ekki á þessu umfangi er að umfangið er falið. Það er ógagnsætt að hluta til vegna ótta stjórnvalda við viðbrögð fólks þegar það sér hvernig öllu er háttað. Hluti af þeim ótta er eðlilegur - vegna þess að arfaslakir og beinlínis heimskulegir samningar eru gerðir í þágu einhverra skyldmenna eða vina - en hluti af þeim ótta er til kominn af því að fólk hefur oft takmarkaðan skilning. Hæna, egg.

Þetta lagast ekki nema með því að taka fyrsta skrefið. Opnun á samningagerð hjá ríkinu er skref í áttina að því að skapa meiri meðvitund hjá almenningi, sem að lokum ýtir líka undir getu almennings til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hverskyns hluti.

Gagnsemin elur því af sér meiri gagnsemi eftir því sem á líður. Svokallað “positive feedback loop”.

Að yfirvinna stofnannalega tregðu

Til að þetta gerist þarf vilja hjá ríkisstjórninni. Ég hef ekki séð nein ummerki um vilja til að auka á gagnsæi í ríkisrekstri hjá núverandi ríkisstjórn, en það er ekki þar með sagt að hún sé ofær um að breyta því.

Ég skora því á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að taka þetta mál upp. Og hér er mitt boð: ef fjármálaráðherra tekur af skarið með þetta mál þá býðst ég til að búa til kerfislýsingu og þarfagreina verkefnið án endurgjalds.