Contents

Maya og óttinn

Í gær dó Maya Angelou, 86 ára gömul. Hún var kona sem barðist alla ævi sinni gegn mismunun. Vegna ótta annarra á hinu óþekkta fæddist hún, sem blökkukona í suðurríkjum Bandaríkjanna, inn í samfélag þar sem sumir máttu en aðrir ekki. Þessi aðgreining, sem var til komin vegna mannvonsku og fáfræði, ýtti undir fátækt, sem svo leiddi af sér glæpi.

Þegar hún var sjö ára gömul var henni nauðgað af kærasta móður sinnar. Hún sagði frá ódæðinu, sem varð til þess að æstur skríll drap nauðgarann. Hún öðlaðist við þetta sinn eiginn ótta - ótta við að orð hennar gætu haft alvarleg áhrif - og þagði hún því í sex ár þar á eftir.

Það er til fólk í öllum samfélögum sem nærist á ótta, eigin ótta eða ótta annarra. Þessi ótti er lamandi, hann tætir burt alla skynsemi og hamlar framförum.

Þessi ótti hefur ahrif á hegðun fólks. Hann veldur þröngsýni og fátækt í hugsun. Hann lætur fólk hverfa ofan í þjóðerni sitt, litarhaft eða trú. Lætur fólk reiðast þeim sem eru sér ólíkir, og spyrna gegn þeim. Í einhverjum tilfellum veldur það flóttahneigð: fólk skapar sér ímyndaðan heim þar sem það verður ekki vart við taugaveiklun sína gagnvart hinu óþekkta. Það var einmitt vegna þannig ótta sem Martin Heidegger kallaði eftir “rótfestu í hefðum sem tengjast stað og umhverfi sem eina öryggið sem býðst í pólitískum eða félagslegum aðgerðum í hættulegum heimi."1

Aðgreining leyfir fáfræði um mismunandi félagslegar aðstæður og menningar að dafna, sem ýtir undir gróusögur, sögusagnir, og kolrangar staðalímyndir.

Popúlismi getur af sér popúlisma

Þegar fólk nærist á ótta annarra og hagnast á fordómum þess, þá kallast það popúlismi. Popúlistinn reynir að finna veikan blett, einhverja bólu í hugarfari náungans, og þrýsta á hann. Stundum kemur eitthvað slímugt út.

Popúlistinn er oft ekki að því vísvitandi: þeir eru sjaldan svo snjallir. Þeir athafna sig eftir sínum eigin ótta. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Mayu Angelou, sem er öðruvísi á litinn en hinir hræddu. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Harvey Milk, sem hefur aðra kynhneigð en hinir hræddu. Stundum er óttinn við fólk sem trúir á aðra guði, eða jafnvel sama guð undir öðru nafni. Eða fólk sem bara klæðir sig öðruvísi, eða talar annað tungumál.

En popúlistinn veit að hann getur ekki hagnast á sömu fordómum endalaust. Því þarf popúlistinn alltaf að víkka út. Bæði með því að víkka út eigin fordóma, en líka með því að skapa meiri ótta. Gera samfélagið beinlínis verra.

Þetta er gert með hólfun og skipulagningu. Allt á að vera á sínum stað, allt á að hegða sér rétt. Allt á að lúta stjórn. Eins og Vidler komst að orði eru nútímaborgir orðnar að “ímynd Taylorískrar framleiðslu”2. Edward T Relph sagði þessa hugmynd hafa leitt af sér samfélag sem var “afturhaldssamt, ljótt, sterílt, andfélagslegt, og almennt illa séð."3

Popúlistinn hræðist það sem hann skilur ekki. Því gefur hann sér það hvernig allt virkar, og reynir að umraða heiminum í það líkan. Allt sem ekki passar er ýmist þröngvað inn í það, eða því er tortímt.

Einn daginn eru múslimar slæmir, og næsta dag eru það allir sem ekki eru kristnir. Næsta þar á eftir eru það einhverjir aðrir.

Frægt er ljóð Martins Niemöller: [“first they came for the Socialists, but I did not speak out - because I was not a Socialist."][1] Muniði hvernig það endar?

Popúlistinn byrjar alltaf á einhverju einföldu, einhverju - eða einhverjum - sem öllum er sama um.

Það var enginn eftir til að tala fyrir þig

Það krefst hugrekkis að sigrast á ótta. Það krefst enn meiri hugrekkis að hafna popúlisma. Maya Angelou gerði hvort tveggja, og á langri ævi sinni sá hún heiminn breytast á ýmsa vegu, stundum til hins betra, stundum til hins verra.

Á þeirri tæpu öld sem hún lifði tók óttinn á sig margar birtingarmyndir. Maya Angelou byrjaði að tala á ný meðan seinni heimstyrjöld geisaði, á tíma þar sem milljónir létust vegna ótta. Stríðið kom til ekki síst vegna þess að fólk sem nærðist á ótta annarra náði yfirhöndinni yfir rökhyggju. Þetta er auðvitað einföldun, en skrefin voru þrjú:

  1. Hrun í fjármálakerfinu sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir afkomuöryggi fólks
  2. Vaxandi þjóðernishyggja, einangrunnarhyggja og annarskyns óttadrifin pólitík
  3. Heimsstyrjöld þegar það sauð upp úr milli nágrannaþjóða og þjóðarbrota

Við erum einu skrefi frá því að þurfa að horfa upp á annað blóðbað. Á vissan hátt er það þegar hafið: í Sýrlandi, í Úkraínu, í Tælandi. Eins í kosningunum í Evrópu um síðustu helgi, og kosningunum sem eru framundan á Íslandi, þá var óttadrifni popúlisminn aðal umræðuefnið. Það kemst ekkert að, nákvæmlega ekki neitt, nema hræðsluáróður, fordómar og viðbjóður.

Það kvarnast fljótt úr hugrekkinu þegar óttinn er allstaðar. En það er óskynsamt að óttast hið óþekkta, þegar hið þekkta er miklu verra: ef þessi óttadrifna alda popúlismans fær að halda áfram með sama hætti, þá er raunveruleg hætta á því að næsti umgangur verði ofbeldisfullur. Að samfélög sem höfðu öll heimsins tækifæri til að læra hvor af öðru og bæta sig taki sig í staðinn til og heyji stríð.

Það þarf ekki að gerast. Francis Fukuyama hafði rangt fyrir sér: sagan er ekki búin. Maya Angelou sigraðist á sínum ótta og varð ásamt Martin Luther King, Malcolm X og Nelson Mandela einn af risum mannréttindabaráttunnar. Þannig getur sagan okkar orðið. Hugrekkið getur tórað enn.


  1. Vitnað: Harvey, The Postmodern Condition, bls. 35. ↩︎

  2. Anthony Vidler, The Third Typology. ↩︎

  3. Edward T. Relph, The Modern Urban Landscape [1]: http://veni.com/articles/firsttheycameforme.html ↩︎