Contents

Gluggað í ríkisfjármálin

Contents

Ég asnaðist til að skoða ríkisfjármálin. Vitiði hvað kom í ljós?

Ríkisstjórnin sem boðaði aðhald í ríkisfjármálum hefur eytt umtalsvert meira en vonda fjárglæfrastjórnin sem sat áður.

Ríkisstjórnin sem boðaði lægri skatta hefur innheimt töluvert meira skattfé en vonda skattpíningarstjórnin sem sat áður.

Athugið að þetta er þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi afþakkað milljarðatugi í auðlindagjald frá handhöfum einokunarréttar á fiski.

Reyndar eru 25 milljarðar af tekjuaukningunni í formi sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins.

Ég miða hér við árið 2013. Á fyrri hluta ársins 2013 var gamla ríkisstjórnin við lýði, fyrstu 5-6 mánuðina. Þetta er ekki sundurliðað eftir mánuðum, því miður. Því varð maður að bera þetta saman við nokkur fyrri ár til samanburðar, en ég á erfitt með að sjá annað en að það hafi mestmegnis verið nýja ríkisstjórnin sem breytti stefnunni.

Ríkisstjórnin kostaði 33.4% meira árið 2013 en árið 2012. Nákvæmlega tveir yfirflokkar kostuðu minna 2013 en 2012: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, og fjármagnskostnaður.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lækkaði sig um 1%, að því er virðist aðallega með því að leggja niður fóðursjóð, húsbyggingasjóð, og minnka verulega framlög til byggðaáætlunar og iðju og iðnaðar (sem felur í sér átak til atvinnusköðunar og ýmis nýsköpunar- og markaðsmál).

Fjármagnskostnaður er peningur sem notaður er til að borga vexti (aðallega) af skuldum ríkisins, og lækkar helst ef vel gekk að borga af skuldum eða endurskipuleggja skuldirnar á árinu á undan.

Allt annað hækkaði.

Forsætisráðuneytið um 26.3%. Þar mátti helst nefna hækkun á fjárframlögum til aðalskrifstofu ráðuneytisins, töluverða hækkun á framlögum til óbyggðanefndar, þjóðminjasafnsins, og Þingvallaþjóðgarðs.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hækkaði um 19.7%. Þar mátti helst sjá 17 milljarða króna aukningu á afskriftum af skattakröfum, þar sem farið er um 11 milljarða umfram fjárheimild. Einnig er liður í því ráðuneyti sem ber titilinn “(óþekkt)”, þar sem tæplega 2 milljarðar hafa horfið.

Sumt eða allt af þessu kann að eiga sér ástæður, en erfitt er að sjá hvernig þetta telst vera aðhald í ríkisfjármálum.

Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta illa. Það væri forvitnilegt að vita hvað formaður fjárlaganefndar hefur um þetta fyrirkomulag að segja, enda virðist ríkisstjórnin þrátt fyrir allt að vera að starfa vel innan fjárlaga á árinu 2013. Þetta voru auðvitað fjárlög sem voru sett 2012, þegar Björn Valur Gíslason var formaður fjárlaganefndar, en þetta er samt skrýtið og úr takti við árin á undan.

Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út fyrir árið 2014 - en merkilegt nokk, þá hafa tölur fyrir árið ekki verið birtar, en það er ekki nein tæknileg ástæða fyrir því að það ætti ekki að vera hægt að birta útgjöld ríkisins jafnóðum.

Ríkisfjármál eru flókið mál. Hér er ég ekki að skammast í neinum, en mér finnst full ástæða til að draga athygli að þessu og spyrja spurninga.