Contents

Í hvaða iðnbyltingu erum við eiginlega?

Upprunalega birt í Kjarnanum

Almenn umræða um framtíðarfræði undanfarin ár hefur litast mikið af bók eftir Klaus Schwab, stofnanda World Economic Forum, um fjórðu iðnbyltinguna. Bókin er á margan hátt ágæt og dregur athygli leikmanna að gríðarlegum samfélagsbreytingum sem eru í farvatninu, en á sama tíma líður hún fyrir takmarkaða sögurýni.

Schwab hefur fullyrt að hraði yfirstandandi tækniþróunar eigi sér enga sögulega hliðstæðu. Þessi dramatíska fullyrðing sýnir fyrst og fremst vanþekkingu á mannkynssögunni. Í Japan þróaðist samfélagið úr lénsskipulagi með samúræjum yfir í að vera fyrsta fórnarlamb kjarnorkuárásar á einni lífstíð. Örar breytingar eru alltaf að gerast, en við kunnum sjaldnast að meta þær að verðleikum.

Samkvæmt líkani Schwabs einkennast iðnbyltingarnar fjórar af byltingu vélvæðingar, byltingu í fjöldaframleiðslu-, rafmögnun og fjarskiptum, byltingu í stafrænum samskiptum, og loks hinni fálmkenndu fjórðu iðbyltingu, sem á að byggjast á gervigreind, framförum í líftækni, sjálfvirknivæðingu, þrívíddarprentun og ýmsu öðru.

Einn gallinn við þessa greiningu er að hún horfir framhjá því hvernig framfarir í efnafræði og efnisfræði hafa legið til grundvallar síðari byltingum, og hundsar stórkostlega byltingu í kjölfar seinni heimstyrjaldar sem gaf af sér plast, hálfleiðara, ótal efnaferli og gríðarlegt úrval af málmblöndum, svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt því er næsta umferð í það minnsta fimmta iðnbyltingin.

En þetta er kannski ekki aðalatriðið. Vandinn við öll svona greiningarlíkön er að þau sýna fólki skýra mynd af óskýrum veruleika. George Box orðaði það þannig að “öll líkön eru röng, en sum líkön eru gagnleg.” Og því verðum við að spyrja okkur hvort fjögurra iðnbyltinga líkan Schwabs sé í raun gagnlegt.

Til að líkan teljist gagnlegt er líklega ágætis grunnregla að líkanið segi okkur eitthvað sem var ekki augljóst, að það hjálpi okkur að skilja hvað muni gerast næst, og að það gefi ekki villandi hugmyndir um stöðu mála. Skoðum greiningarlíkan fjórðu iðnbyltingarinnar (4IR) til að meta hvort það uppfylli þessi skilyrði.

Eðli veldisvaxtar

Áður en hægt er að kanna þessi atriði þurfum við að gera okkur grein fyrir því hlutverki sem veldisvöxtur spilar, og hvernig hann virkar í praxís. Schwab sneiðir frekar hratt hjá þessu umræðuefni í bók sinni, í örkafla um ofurhneigðir (e. megatrends) ─ stórvirkum áhrifum sem birtast á löngum tíma.

Fræg saga segir frá manni sem vann Indlandskeisara mikinn greiða, og bauð keisarinn honum að nefna sín verðlaun. Hann svaraði að hann vildi að keisarinn setti eitt hrísgrjón á fyrsta reit taflborðs, tvö á það næsta, fjögur á það þarnæsta, og þannig koll af kolli út taflborðið þannig að tvöfaldað væri í hvert sinn, og að þessi hrísgrjón yrðu verðlaunin. Keisarinn gat varla ímyndað sér það hve rækilega hann væri að fara að fara á hausinn með því að samþykkja verðlaunin. Reitirnir á taflborði eru 64 talsins, en strax á 8. reit væru hrísgrjónin orðin 256 talsins, á 16. reit 65.536, og á 24. reit væru þau orðin rúmlega fjórir milljarðar. Grjónin á síðasta reitnum yrðu fleiri en sandkornin á öllum ströndum jarðar.

Að skilja veldisvöxt er lykillinn að því að skilja framtíðina. Eitt best heppnaða spálíkan síðustu 50 ára er Lögmál Moores, sem spáði árið 1965 að fjöldi smára á örflögu myndi tvöfaldast á átján mánaða fresti. Á þeim tíma voru smárar á hverri örflögu aðeins örfáir, en núna skipta þeir vitanlega milljörðum, rétt eins og hrísgrjónin á 36. reit taflborðsins. Reiknigeta nútímatölva er afleiðing af því, og nær allar afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar eru bókstaflega byggðir á þeirri reiknigetu.

Það sem gerir veldisvöxt erfiðan er að mannfólk hefur enga getu til að skynja slík áhrif. Líf okkar og upplifun okkar á tíma eru línuleg, sem og flest ferli sem við búum við. Það eru nokkur veldisvaxtarferli sem við þekkjum mjög vel, svo sem þroski fóstra frá einni frumu í heilsteypta manneskju á afar stuttum tíma.

Nokkur dæmi um ferli sem þenjast nú út með veldisvexti eru, auk lögmáls Moores (sem ýmsir hafa spáð að fari nú að hægja á sér af ýmsum ástæðum sem verður ekki farið út í hér): framleiðsla sólarorkupanela, orkuþéttleiki rafhlaðna og framleiðsla þeirra, útbreiðsla netsins, útbreiðsla nettengdra heimilistækja, reiknigeta gervigreindar, og fleira. Í rauninni hér um bil allt það sem liggur til grundvallar hugmyndum Schwabs um 4IR.

Segir 4IR okkur eitthvað nýtt?

Samkvæmt líkani Schwabs, sem kalla má 4IR, mun fjórða iðnbyltingin fela í sér miklar framfarir í vélmennum, gervigreind, nanótækni, skammtatölvum, líftækni, “interneti hlutanna”, þrívíddarprentun og sjálfkeyrandi bílum. Flestu af þessu hefur verið spáð lengi.

Gervigreind hefur verið viðfangsefni fræðimanna frá tíma Dartmouth ráðstefnunnar 1956, en fyrst og fremst vantaði nægjanlegt reikniafl til að það yrði raunhæft að nýta það í verulegum mæli. Þróunin hefur verið stöðug og fyrirsjáanleg, en vissulega hefur hún fylgt veldisvexti.

Hugmyndir okkar um vélmenni hafa því miður litast af ranghugmyndum um að vélar þurfi að verða mannlegri til að geta unnið fleiri verk. Við miklum oft fyrir okkur ímynd mannsins, sem villir okkur sýn gagnvart þeim mikla fjölda þjarka ─ þ.e., vélmenna sem ekki eru byggð í mannlegri mynd ─ sem allir umgangast dagsdaglega, hvort sem það eru umferðarljós, uppþvottavélar, bílar, sjálfstýrandi ryksugur, framleiðslulína í verksmiðjum, eða farsímar sem geta leyst úr flóknum vandamálum með raddskipanir. Þróun allra þessarra og fleiri eiginleika hefur fylgt veldisvexti.

Þróun nanótækni hefur tekið miklum stökkum, en líkt og með gervigreind er það rúmlega hálfrar aldar gömul hugmynd. Eðlisfræðingurinn Richard Feynman lagði grunninn að nanótækni upp úr 1950, en hugtakið nanótækni kom fram nokkrum áratugum síðar samhliða þróun fyrstu smásjánna sem gátu greint efni á nanóskala og síðari uppgötvun Fullerene-efna, sem opnuðu á rannsóknir á ýmiskonar öðrum formum kolefnisgrinda. Þessi hæga þróun í upphafi byggðist smám saman upp á það stig sem við erum núna á, þar sem nanótækni er orðin svo hversdagsleg að við tökum varla eftir henni, þótt hún sé allsstaðar í kringum okkur.

Það má halda svona áfram í gegnum allar fullyrðingar Schwabs. Sameiginlegi þráðurinn er blanda af veldisvexti og vanskilningi fólks á hve hratt áhrifa hans gætir. Örsmá skref fyrir mörgum áratugum opnuðu hugmyndafræðilega á ferli þróunar sem hefur vaxið smám saman, eins og gengið sé eftir reitum taflborðs með sífellt fleiri hrísgrjónum, þar til að við komum að nútímanum þar sem allt er að verða vitlaust.

Því vil ég meina að 4IR líkanið segir okkur ekkert nýtt nema að við séum ýmist ólæs á veldisvöxt, eða höfum hundsað áhrifin mjög lengi. Hvort heldur sem er, þá er ljóst að skilningur á veldisvexti út af fyrir sig er nóg, og 4IR í besta falli einföldun á þeim skilningi fyrir leikmenn.

Hjálpar 4IR okkur að skilja hvað muni gerast næst?

Að spá með einhverjum hætti fyrir um framtíðina er erfitt. Á hverjum degi geta gerst ólíklegir en afdrifaríkir atburðir og samansafn atburða getur dregið annars fyrirsjáanlega þróun út á villigötur. Hins vegar eru ýmis ferli sem eru mjög fyrirsjáanleg. Þegar Gordon Moore spáði því að fjöldi smára í örflögum myndi tvöfaldast á 18 mánaða fresti, þá var hann búinn að horfa á þá þróun í einhvern tíma, og gaf sér það að það væri engin ástæða til að þeirri þróun myndi linna nema, hugsanlega, að menn færu að reka sig upp undir einhverskonar eðlisfræðileg mörk.

Spágildi 4IR er takmarkað. Fyrst og fremst spáir það því að sú þróun sem hefur nú þegar staðið yfir jafnvel í marga áratugi, muni halda áfram. Spágildi skilnings á veldisvexti dugar til að skila sömu niðurstöðu. Það sem er þó ágætt við greiningu Schwabs er að hann skoðar ýmiskonar afleiðingar þeirrar þróunar sem er í gangi. Tímatakmörkin á því liggja ekki mjög langt inni í framtíðinnni, og í rauninni má segja að með til að mynda rauntímaþýðingu talaðs máls milli tungumála sem Google sýndi fyrir stuttu séum við nú þegar komin lengra en 4IR hefur tök á að skýra.

Það er því kannski hægt að fullyrða að 4IR hjálpi leikmönnum að skilja næstu skrefin, en ég myndi fara varlega í að segja að vísinda- og tæknisamfélagið sem er að þróa þessa tækni alla njóti góðs af þessari greiningu. Þetta er greiningarlíkan sem hefur hreinlega ekki sömu spádómsgáfu og lögmál Moores, sem dæmi.

Stuðlar 4IR að villandi ímynd um stöðu mála?

Hættan er auðvitað sú að einhver horfi á fjórðu iðnbyltinguna og álykti sem svo að hún muni byrja, og enda, og svo verði einhverskonar nýtt norm í einhvern tíma. En þótt það hafi liðið rúmlega fimmtíu ár frá því að Thomas Newcomen smíðaði sína “vél sem lyftir vatni með eldi”, þar til James Watt fór að grúska í sinni gufuvél, þá er sagan auðvitað samfelldari en svo, og í millitíðinni voru ótal fræðimenn að grúska með ýmsum hætti í tækninni.

Það er sömuleiðis tilfellið með allt annað. Bakelite, fyrsta plasttegundin, var þróuð 1907. Í dag eru um 6000 plasttegundir í almennri notkun, og nánast allar voru fundnar upp eftir seinni heimstyrjöld. Þróunin átti sér ekki stað á neinu einstöku augnabliki, heldur sem samfelld og í raun viðstöðulaus þróun, sem er enn i gangi.

Hugbúnaðurinn sem keyrir á meðaltölvu í dag hljóðar upp á milljarða skipanna, og fjölgar þeim dag frá degi, en það var ekkert eitt augnablik þar sem skipanirnar voru allt í einu orðnar svona margar. Þetta gerðist smám saman með ærnum tilkostnaði.

4IR líkanið felur í sér ákveðna söguskýringu um að sérstöðupunktur (e. singularity) eigi sér stað í þróuninni, og hann sé nægur til að skilja allt sem eftir kemur. Þetta á sér ákveðna hliðstæðu við það sem hagfræðingar kalla jafnvægi með undantekningum (e. punctuated equilibrium) ─ að allt sé að jafnaði bara eins og það er, og svo stundum gerist eitthvað sérlega klikkað.

Auðvitað átta sig allir á því að þetta er ekki svona í alvörunni. En hættan er að þegar fólk fer að leyfa sér að hugsa um mannkynssöguna, og um framtíðina, sem sérstæða runu byltinga frekar en samfellda þróun, þá fer öll stefnumótun, öll áætlanagerð, og öll hugsun að litast af því að allir eru að bíða eftir næstu byltingu, og láta eins og hún komi bara skyndilega einn daginn.

Raunin er sú að bylting er ferli. Ef nógu margt fólk hugsar nógu lengi og nógu vandlega um vandamál, og skilar smám saman sífellt áhugaverðari niðurstöðum, þá verður stundum til sá krítíski massi að boltinn fer að rúlla af sjálfum sér, magnast upp, og breytir heiminum. En alla þessa vinnu þarf að fjármagna, skipuleggja, og umfram allt vinna. 4IR líkanið gæti talið einhverjum trú um að það allt þurfi ekki.

Njótum flækjunnar

Ég átta mig auðvitað á því að þessi gagnrýni er að einhverju leyti smámunasemi. Bók Klausar Schwab er ekki ætluð að vera uppskrift að framtíðinni, heldur frekar leiðbeiningabæklingur fyrir fólk sem hefur ekki fylgst nægilega vel með og er farið að átta sig á því að eitthvað merkilegt sé í gangi. Sem slík er 4IR ágætis hugmynd, og bókin er eftir því góð.

Bókin tekur líka mjög glöggt á ýmsum afleiðingum sem er þess virði að fólk átti sig á, svo sem rafmyntir, aukið reikniafl farsíma, þrívíddarprentun, deilihagkerfið, áhrif gervigreindar á vinnumarkaðinn og fleira í þeim dúr. Enginn ætti að láta þessar stóru samfélagsbreytingar koma sér á óvart.

Sömuleiðis er fínt hvað Schwab bendir á mikið af mjög alvarlegum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir, og hversu stórkostlegt átak mun þurfa til að leysa þau vandamál. Þá er ég mjög spenntur fyrir þeirri vinnu sem nú hefur farið af stað hjá World Economic Forum í að reyna að kortleggja og leiða þessa þróun ─ til að skilja framtíðina er nauðsynlegt að kortleggja hana.

En kjarninn í ofangreindri gagnrýni er að um að öll líkön eru röng. Ef við höldum okkur of fast í ákveðið greiningarlíkan, frekar en að skoða atriðin sem liggja líkaninu til grundvallar af kostgæfni, þá er hætt við að við missum af tækifærum og ógnum, og greinum okkur út í horn.

Framtíðin er brjálæðislega flókin. Það er enginn undir það búinn að skilja hvernig heimurinn verður eftir fimm ár, hvað þá fimmtíu. Við þurfum að læra að aðlagast jafn óðum. Það verður því að flokkast sem sjálfsskaði að hefta hugsun sína í einu líkani þegar svo margt stórkostlegt er í gangi.