Contents

Féflettur almenningur

Contents

Grein birtist upprunalega í Kjarnanum

Árið 1999 skilaði nefnd um heimildir til töku skatta og þjónustugjalda skýrslu, sem aldrei hefur verið birt. Þar var farið yfir gildandi lög á þeim tíma með hliðsjón af því hvort þau samræmdust kröfum í 77. gr. stjórnarskrárinnar til opinberra gjalda. Niðurstaða nefndarinnar var að möguleiki væri á stjórnarskrárbroti í gjaldtökuákvæðum um 90 mismunandi lagabálka, og “í mörgum tilvikum er nauðsynlegt að gagnger endurskoðun fari fram á einstökum tekjustofnum, en í öðrum ættu minni lagfæringar að duga.” Flest umrædd lög hafa tekið litlum sem engum breytingum hvað gjaldtöku varðar á undanförnum tuttugu árum.

Dæmi um lög sem falla þar undir eru lög um aukatekjur ríkissjóðs, þar sem m.a. er gjald fyrir nýskráningu fyrirtækja. Í löndunum í kringum okkur er það gjald oftast á bilinu 2.000-25.000 krónur, en á Íslandi er það 124.500 kr samkvæmt lögum, en raunkostnaður við skráninguna getur varla verið mikið meiri en 10.000 kr. að jafnaði. Til að bæta gráu ofan á svart, þá til viðbótar þessari rúmu tólfföldun á raunkostnaði leggur Ríkisskattstjóri aukalegt, líklega ólögmætt álag ofan á lögboðið gjald upp á 6.500 krónur.

Þá má einnig nefna þinglýsingargjald, sem er ekki hátt sem slíkt, en safnast þegar saman kemur. Jafnvel ef það gjald nam raunkostnaði á einhverjum tímapunkti, þá hafa tækniframfarir og rafrænar þinglýsingar í það minnsta dregið eitthvað úr kostnaði. Samt heldur þessi liður áfram að hækka.

Sú tilhneiging að fjármagna verkefni ríkisins með háum gjöldum hefur mikil efnahagsleg áhrif á landið. Samkvæmt mati Samtaka atvinnulífsins munu þær verðlagshækkanir sem lagðar eru til í tengslum við fjárlögin 2019 auka verðbólguna um 0,01% ─ sem er svosem ekki mikið, en allar þessar (hugsanlega ólögmætu) krónutöluhækkanir hafa kynt undir verðbólgu undanfarna áratugi sem samanlagt hefur kostað almenning í landinu hundruði milljarða, svo ekki sé minnst á áhrifin af háu verðlagi á Íslandi á möguleikum á atvinnuþróun, nýsköpun og útflutning á vörum og þjónustu.

Það gefur auga leið að veitingahús sem þarf að borga hálfa milljón fyrir vínveitingaleyfi mun velta þeim kostnaði út í verðlagið hjá sér. Sama á við um hótel sem borga hálfa milljón fyrir gististaðaleyfi, svo ekki sé talað um alla aðra í samfélaginu sem þurfa að borga fyrir ýmiskonar þjónustu frá ríkinu. Það er hreint sanngirnismál að aðeins sé rukkaður raunkostnaður í öllum þessum tilfellum.

Ríkið fjármagnar öll verkefni samfélagsins með tekjum af sköttum annars vegar, og gjöldum hins vegar. Það hefur verið gríðarlega mikil viðleitni til að lækka skatta undanfarna áratugi, einkum á hátekjuhópa. Þetta hefur verið aðalsmerki nokkurra síðustu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa þó ekki haft jafn hátt um þær gríðarlegu hækkanir gjalda sem hafa átt sér stað undir þeirra stjórn yfir langt tímabil. Ástæður þessa hækkananna eru einfaldar: annars vegar handónýt hugmyndafræði sem setur gjald á metnað og væntingar í stað áunnins auðs og svo auðvitað að það kostar peninga að vinna lögboðin samfélagsverkefni og byggja upp samfélagið. Ef skattarnir verða að vera lágir, einkum á auðugasta fólk samfélagsins, þá þurfa gjöldin að vera himinhá til að dæmið gangi upp.

Til að réttlæta þessa óráðsíu hefur orðið til sú orðræða að gjöld séu skattar. Þetta er notað til að mála auðlindagjöld sem skatta, sem er auðvitað bull, því eðli málsins samkvæmt eru þau eðlileg afnotagjöld til samfélagsins fyrir nýtingu auðlindar og því eðlisólík bæði þjónustugjöldum, sem eru greidd fyrir tiltekna þjónustu, og sköttum, sem eru lagðar almennt á ákveðnar gerðir fjármagnstilfærslna með hlutfallslegum hætti.

Að gera þessa hluti óþarflega flókna, ógagnsæja og tyrfða er árás á getu samfélagsins til að eiga upplýst samtal um skatta og gjöld. Það að stinga þessari tæplega 20 ára gömlu skýrslu undir stól er árás á stjórnarskrárvarinn rétt almennings til að vera ekki féflettur af ríkinu fyrir nauðsynlega og óhjákvæmilega lögboðna þjónustu. Og það að öll þessi gjöld séu hækkuð árlega til að mata verðbólguna er árás á hagkerfið okkar.

Svona gjaldtaka beinist gegn þeim sem vilja gera eitthvað nýtt, skapa sér tækifæri og byggja upp. Sú forgangsröðun er skaðleg.