Contents

Loftslagsvá -- 410ppm

Greinin birtist upprunalega í Kjarnanum

Spurningin er löngu hætt að vera hvort loftslagsbreytingar séu raunverulegar (já), og jafnvel hætt að vera hvort að stjórnmálamenn skilji almennt loftslagsbreytingar (nei), og er orðin hvort stjórnmálin séu með raunhæfa áætlun til að bjarga mannkyninu og lífvænleika plánetunnar okkar (sjáum til…).

Ný skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er einn hrikalegasti hryllingslestur sem hægt er að hugsa sér. Stutta stutta útgáfan er að eini möguleikinn okkar til að takmarka hnattræna hlýnun við 1.5°C meðalaukningu á heimsvísu felst í örum orkuskiptum og umsvifamiklum breytingum á iðnaðarferlum. Töluverð föngun kolefnis getur hægt á þessari niðurstöðu, en eingöngu breytingar munu stöðva hana.

Nýjar mælingar frá upphafi árs 2019 sýna að CO₂ í andrúmsloftinu er nú komið upp í rúmlega 410ppm, sem er það mesta magn CO₂ í andrúmsloftinu undanfarin átta hundruð þúsund ár, samkvæmt ískjarnasýnum.

https://s3-us-west-2.amazonaws.com/secure.notion-static.com/c099f59c-48cf-41de-8b66-35b3e39d7728/Untitled.png

Þróun CO₂ síðastliðin 800.000 ár. Mynd: Peter Gleick, US National Academy of Science.

1400 þúsund tonna markmiðið

Þegar þessar niðurstöður eru bornar saman við loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar kemur glögglega í ljós að áætlunin mun ekki bjarga okkur að óbreyttu.

Metár Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda var 2008, en 2016 vorum við komin niður í 4,3 milljónir tonna koltvísýrings árlega. Til að ná markmiðum Parísarsamningsins þarf minnst samdrátt á losun um tæplega milljón tonn á ári, og því markmiði þarf að ná fyrir 2030. Sem þýðir að við höfum 12 ár til að draga úr þessari losun, eða línulega um 83 þúsund tonna árlegan samdrátt í losun.

En í sannleika sagt er það ekki nóg. Til að vera á örugg þarf töluvert meiri samdrátt, en IPCC mælir með nettó núll losun fyrir árið 2055, til að haldast innan þolmarka. Til að ná því þarf línulegan samdrátt um 116 þúsund tonn á ári. Hvert ár sem við bíðum með að hefjast handa eykur á vandamálið.

Ómarkviss áætlun

Áætlun ríkisstjórnarinnar er ekki með neinn tölusettan samdrátt. Það á að verja 1.5 milljörðum króna í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, og gera á nýskráningu bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti ólöglega árið 2030. Þá á að verja 4 milljörðum í kolefnisbindingu, sem er mikilvægt skref en seinkar bara niðurstöðunni. Þetta, ásamt öðrum aðgerðum sem snúast aðallega um rannsóknir, gerir samtals 6 milljarða króna, yfir fimm ára tímabil, eða rétt rúmur milljarður króna á ári.

Það er aðeins einn af þremur flokkum ríkisstjórnarinnar sem hefur gert sig út fyrir að vilja laga þetta ástand, en það er Vinstri hreyfingin ─ Grænt framboð. Þegar áætlunin er skoðuð þá lítur út fyrir að stuðningur umhverfisverndarflokksins VG við ríkisstjórnarsamstarfið hafi verið keypt fyrir tæplega 0.1% af árlegum fjárlögum ríkisins í stuðning við óraunhæfa áætlun sem gerir ekki neitt gagn í stóra samhenginu. Það var haldinn fínn blaðamannafundur um þessi 0.1% fjárlaga, þar sem handaveifingar sýndu ekki á nokkurn hátt fram á að samdráttur um 116 þúsund tonn á ári næðist.

Raunverulegur möguleiki

Það er hægt að ná markmiðinu, en við þurfum töluvert beittari nálgun til þess en ríkisstjórnin hefur lagt til. Að framleiða töluverðan hluta eldsneytisins sem við notum hér innanlands með efnaferlum sem ganga út á föngun koltvísýrings frá verksmiðjum og virkjunum er hluti af lausninni; við gætum náð 10-15% af leiðinni fyrir lok 2020 með góðri fjárfestingu strax, sem skilar sér til baka í þjóðarbúið samstundis með samdrátti á kostnaði vegna innflutnings olíu.

Það má ná einhversstaðar á milli 5-10% árangri í viðbót með því að lögfesta viðauka við MARPOL samninginn, svo að skip á Íslensku hafsvæði hætti að brenna svartolíu og fari sparlegar með eldsneyti. Við gætum jafnframt gert auknar kröfur til eldsneytisskilvirkni en eru í þeim samningi, t.d. með því að kveða á um 10-15% metanólíblöndun eða að ný skip keyri aðalvél sína af rafhlöðum, sem hlaðnar eru með ljósavél ─ hybrid skip.

Þá getum við bannað innflutning á fólksbílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrr, til dæmis 2025. Þá eru 7 ár til stefnu, og tilefni til að gefa í; slíkt gæti náð 10-15% árangri, og meira eftir því sem á líður. Fullkomin rafbílavæðing er samt ekki raunsæ á litlum sjö árum, þannig að áhersla yrði að vera á því að bæta verulega í almenningssamgöngur á

Þessar tillögur koma okkur tæplega hálfa leið að árlegum samdrætti ársins 2019, og hugsanlega lengra, en samhliða fjórföldun á fjármagni til skógræktar og öðrum aðgerðum til bindingar koltvísýrings þá getum við keypt okkur smávegis tíma.

116 þúsund tonna samdráttur á ári er yfirstíganlegt vandamál, en ekki meðan áætlunin er byggð á handaveifingum og vongleði. Það þarf nýja áætlun sem tekur af festu á þessu vandamáli.

En, heimurinn

Ísland ber ábyrgð á um 4,3 milljónir tonna koltvísýrings árlega. Í heiminum eru losuð um 21 milljarðar tonna árlega. Okkar hlutur er aðeins 0.02% af heildinni. Það má ennfremur fegra okkar hlut með því að gera greinarmun á losun CO₂ á beinni ábyrgð stjórnvalda og CO₂ sem skrifast á alþjóðasamfélagið, t.d. vegna skipaflutninga milli landa og millilandaflugs. Við getum líka stælt okkur af ýmsum jarðvarmaverkefnum um allan heim sem hefur orðið til þess að minnka útblástur annarra.

En eftir stendur þessi 21 milljarður tonna, sem við þurfum að minnka niður í nánast ekki neitt. Einhver gæti sagt að þáttur Íslands sé svo lítill að við þurfum ekkert að hafa neinar áhyggjur. Á móti má þó segja að ef Ísland, með öllum sínum endurnýjanlegu orkuauðlindum, getur ekki leyst þetta vandamál, hvernig í ósköpunum á nokkurt annað land að geta gert það?

Tækifærið okkar, ef svo mætti kalla, felst í því að það land sem lagar vandamálið á undan öllum öðrum löndum mun njóta góðs af því, bæði í orðspori og peningum. Við munum geta flutt út lausnina til þeirra landa sem eiga erfiðara með að draga úr sinni losun, og hjálpa þeim þannig ─ og öllu mannkyninu ─ að ná markmiðinu. En þetta gerist ekki nema að við ákveðum að þetta sé forgangsmál og stefnum hagkerfi landsins beinlínis að því að leysa þetta vandamál.

Tíminn líður

Að setja okkur markmið fyrir 2030 þýðir að milli hausts 2018 og vors 2019 er um 5% alls tíma sem við höfum til stefnu búinn. Ef við nýtum næstu 5% tímans jafn illa og þessi 5%, þá er farið að líta minna og minna út fyrir að við náum markmiðinu í reynd.

Hugsanlega verður til einhverskonar pólitísk fegrunaraðgerð sem má nota til að búa til þá ímynd að við höfum staðið okkur vel. En eftir því sem loftslag jarðar verður harðvítugra gagnvart mannkyninu mun jörðin sýna okkur betur og betur hvað hún gefur lítið fyrir okkar pólitík.