Contents

Endalok internetsins eins og við þekkjum það

Contents

Greinin birtist upprunalega í Kjarnanum

Í næstu viku fer fram atkvæðagreiðsla í Evrópuþinginu um nýja evróputilskipun um höfundarétt. Ef hún verður samþykkt liggur fyrir að internetið muni aldrei bera þess bætur.

Afleiðingarnar munu vera víðtækar og mjög slæmar. Þegar þú setur inn athugasemd eða mynd á samfélagsmiðlum mun fara fram víðtæk leit í stórum gagnagrunnum til að kanna hvort framlag þitt brjóti í bága við höfundarrétt einhvers. Leitin mun skila röngum niðurstöðum reglulega: tæknin til að gera svona leit er ófullkomin og getur aldrei orðið fullkomin. Stundum verða eldgömul verk sem fallin eru úr höfundarrétti talin af gagnagrunninum vera höfundarréttarvarin. Stundum mun gagnagrunnurinn telja þitt framlag of svipað einhverju sem einhver gerði einhverntímann. Stundum mun villan fara á öfugan veg: höfundarréttarbrot verður ekki merkt sem slíkt, því gagnagrunnurinn þekkir ekki verkið sem um ræðir.

Allt jafngildir þetta ritskoðun ─ allt sem sett er fram verður skoðað og ágæti þess metið af tölvum áður en það fer í umferð. Nema hvað slík ritskoðun er talin boðleg af talsmönnum umræddrar tilskipunar, því mögulegt er að þetta dragi lítillega úr höfundarréttarbrotum.

Jafnvel ef horft er framhjá því vandamáli sem sjálfvirk ritskoðun internetsins er, eru önnur alvarleg vandamál við tilskipunina. Ekkert fyrirtæki í heiminum á í dag gagnagrunn yfir höfundarréttarvarin verk. Slíkur gagnagrunnur getur ekki orðið til, því höfundarréttur er sjálfvirkur og skráning ekki nauðsynleg. Ef ég teikna mynd á blað er myndin höfundarréttarvarin, jafnvel þótt einhver gagnagrunnur viti ekki af því. Að búa til gagnagrunn af þessu tagi mun ekki vera á færi nokkurs, en jafnvel stærstu fyrirtækin sem reyna þetta munu þurfa að eyða gríðarlegum fjármunum í það hæpna markmið. Slíkt verður væntanlega ekki á færi smærri fyrirtækja, og undanþágan fyrir “litla vefi” nær ekki yfir nema pínulitla vefi.

Ég er ekki að tala gegn því að vernda réttindi höfundarrétthafa, en það verður að gæta meðalhófs. Allir sem reka vefsíður koma til með að vera settir í erfiðar aðstæður með óhóflegum kröfum af þessu tagi sem gera þá að óviljugum “hugverkalöggum”. Eins munu notendur samfélagsmiðla upplifa verulega rýrnun á sínu tjáningarfrelsi, þar sem fyrirtæki og efnisveitur eins og Youtube, Facebook og Twitter verða skuldbundin til að taka út efni sem komast ekki í gegnum síuna.

Ef þetta hljómar ekki nógu illa, þá er hér einungis um að ræða 13. grein tilskipunarinnar. Ellefta greinin kveður á um gjöld sem greiða þarf fyrir að vísa í tengla á vefsíður, fréttir og álíka. Eitthvað em við gerum jú flest og myndi slík tilskipun t.d. útrýma vefsíðum eins og Wikipedia. Tólfta greinin gerir það að verkum að upplýsingar um stöðu íþróttaleikja verða höfundarréttarvarin (sama hversu vel Liverpool gengur), og aðrir vankantar þessarar umfangsmiklu tilskipunar eru víðar.

Heiðarlegar tilraunir til að draga úr vondum eiginleikum tilskipunarinnar hafa verið reyndar, en hafa ekki átt erindi sem erfiði. Íhaldssöm öfl í Evrópu ætla sér nú að ýta vondri löggjöf í gegn, í samvinnu við aðila sem koma til með að njóta góðs af þessari rýrnun almannarýmisins (eins og fréttastofu AFP, sem varð nýlega uppvísa að því að bera út áróðursfréttir í þágu tilskipunarinnar).

Ekki er hægt að undirstrika nógu mikið mikilvægi þess að tillagan falli í atkvæðagreiðslu í Strassborg í næstu viku.