Contents

Vitsmunalegur óheiðarleiki

Contents

Ég á að vera orðinn nógu reyndur netverji til að láta það ekki fara í taugarnar á mér að einhver hafi rangt fyrir sér á netinu. En þó hef ég staðið mig nokkrum sinnum að því undanfarna daga að þurfa að svara fáranlegum rökum um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðustu helgi, og mig langar bara til að gera það einu sinni fyrir fullt og allt hér.

Það eru einhverjir sem vilja meina að 70% þjóðarinnar hafi ekki sagt já við tillögum stjórnlagaráðs. Þar er verið að taka þau 33.6% þeirra sem sögðu nei og leggja saman við þau 51.1% sem ekki mættu á kjörstað, til að fá 67.53% út - og svo er rúnað upp í 70% til að láta það líta enn betur út.

Hér er verið að gera fólkinu sem ekki tók þátt upp skoðun. Um þetta hefur verið rifist síðustu daga, og Birgir Ármannsson hefur verið í fararbroddi fyrir þeirri stórkostlega fávitalegu rangtúlkun.

Vandinn hér er að samkvæmt nákvæmlega sömu rökum má segja að 83.5% hafi ekki sagt nei við tillögum stjórnlagaráðs. Þetta jafn röng aðferðafræði sem gefur af sér algjörlega sambærilega niðurstöðu.

Það er vitsmunalega óheiðarlegt að slengja fram annarri túlkuninni en láta hina ekki fylgja með.

Það að segja að “ef einhver vildi samþykkja tillögunar var honum velkomið að mæta á kjörstað og segja já” er algjörlega núllað út með því að segja “ef einhver vildi hafna tillögunum var honum velkomið að mæta á kjörstað og segja nei”.

Nú þætti mér vænt um það að fólk hætti þessi bulli. Þeir sem ekki mættu tóku ekki þátt. Niðurstaðan er sú sem niðurstaðan er.

Vilji Birgir Ármansson eða nokkur annar rengja þessar niðurstöður skal gera það með því að láta gera skoðanakönnun eftir vísindalegri aðferð með áreiðanlegri aðferðafræði, og birta niðurstöðurnar opinberlega. Að vísu væri slík könnun óáreiðanleg af aðferðafræðilegum ástæðum: rannsókn gerð eftir að niðurstöður fyrri rannsóknar (tja, kosninga) eru kynntar fyrir úrtakinu mælir mun betur afstöðu úrtaksins til fyrri rannsóknar en afstöður til rannsóknarefnisins. Hinsvegar, ef einhver hefði gert skoðanakönnun fyrir kosningar væri þetta alveg rétti tíminn til að birta niðurstöðurnar.