Contents

Hagsmunafrat og heigulsháttur

Contents

/(Þessi grein birtist upprunalega sem kjallaragrein í DV föstudaginn 19. júlí 2013)/

Fyrir nokkrum vikum lagði einn maður líf sitt að veði til að upplýsa þig, lesandi góður, um að þú sért í hópi um tveggja milljarða manna sem ríkisstjórn Bandaríkjanna fylgist með. Í kjölfarið hefur komið í ljós að fjölmörg önnur ríki, þar á meðal Bretland, hafa stundað sömu iðju. Þetta stórfellda eftirlit með almenningi, fólki eins og þér sem hefur enga glæpi framið, er rökstutt með því að verið sé að verja lýðræðið fyrir hryðjuverkamönnum.

Á þessum vikum hefur umræðan í fjölmiðlum farið að snúast um allt annað en þessi alvarlegu mannréttindabrot. Það þykir til dæmis miklu áhugaverðara að segja daglegar fréttir af því að Edward Snowden sé enn fastur á flugvelli í Moskvu. Það að kærastan hans dansi súludans er orðið almennari vitneskja en að NSA sé með dragnót á persónuupplýsingum okkar.

Tiltölulega lítið er fjallað um í fjölmiðlum vestanhafs sem og í Evrópu, að flugvél Bólivíuforseta hafi verið neydd til að lenda í Vínarborg og sæta leit, í trassi við Vínarsáttmálann, vegna gruns um að Snowden væri þar um borð. Lítið er talað um að hann sé fastur á flugvellinum að hluta til vegna þess að hann fær ekki ferðafrelsis síns notið – hann er svo gott sem í stofufangelsi, meðan Evrópulönd taka þátt í farsanum.

Evrópa já! Evrópuþingið kom sér saman um að gera heimtingar á rannsókn á eftirliti Bandaríkjamanna á stofnunum Evrópusambandsins, og að setja tímabundið stopp á að bandarísk fyrirtæki versli frjálslega með persónuupplýsingar Evrópubúa meðan rannsókn á eðli og umfangi eftirlitsins stæði. En nei, ríkisstjórnir Svíþjóðar og Bretlands beittu neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að rannsókn væri gerð.

Það verður að teljast svolítið sérstakt þegar tvær ríkisstjórnir – sem vitað er til að deili mikið af hernaðarupplýsingum með Bandaríjunum – ganga að því er virðist gegn eigin hagsmunum. Þetta, og það að Frakkland, Ítalía, Portúgal og Austurríki hafi tekið höndum saman um að brjóta Vínarsáttmálann, ætti að vera forsíðufréttin á öllum fjölmiðlum alla daga þar til að Edward Snowden er kominn í var. Já, þetta er flókið. Já, þetta er minna krassandi en hvað Sigmundur Davíð át í morgunmat. En persónufriðhelgi þriðjungs mannkynsins er að veði!

Ráðamenn allsstaðar eiga að vera þráspurðir: Hvers vegna brutuð þið Vínarsáttmálann? Hvers vegna komuð þið í veg fyrir rannsókn? Hvers vegna hafa Bandaríkin ekki verið beitt viðskiptaþvingunum? Hvers vegna hefur ekki verið kallaður saman neyðarfundur NATÓ þingsins? Hvað um Sameinuðu Þjóðirnar, með sína aðalritarastrengjabrúðu? Hvers vegna neituðuð þið að leyfa umræður um ríkisborgararétt fyrir Snowden á Alþingi? Hvers vegna eruð þið svona miklir andskotans aumingjar?

Það er eins og stjórnvöld í Evópu – þar með talið á Íslandi – hafi fyrst og fremst hagsmuni af því að ganga erinda Bandaríkjastjórnar. Þessi heigulsháttur kemur niður á okkur almennu borgurunum.

Hann er frekar rosalegur, kjánahrollurinn sem gengur um mann þegar maður les fréttir af viðbrögðum ráðamanna í þessu máli öllu. En nú er það þitt, lesandi góður, að gera það sem fjölmiðlar út um allan heim hafa svikist undan. Það er nefnilega þannig að í lok dags er ekki hægt að kvarta bara yfir heigulhætti stjórnvalda og sinnuleysi fjölmiðla. Valdið liggur hjá almenningi, og það er almenningur sem verður að taka það á sig að fylla pósthólf stjórnarráðsins af fyrirspurnum, láta skiptiborð framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins bráðna undan álagi, láta faxtækið í bandaríska sendiráðinu tísta og garga, og neyða með einum eða öðrum hætti allar forsetaflugvélar til að nauðlenda í Vínarborg til að sæta leit.

Það er okkar, almennings, að sjá til þess að jafnvel hinir mestu heiglar viti fyrir hverja þeir eru að vinna, og að við munum ekki líða það að verið sé að ganga gegn hagsmunum okkar í þágu stórveldis.