Contents

Trúarhávaði

Contents

Eitt af því mörgu sem andstæðingar moskubygginga bera stundum fyrir sig er sú truflun sem hlýst af bænaturnum, enda heyrist úr þeim hávært garg fimm sinnum á dag. Þetta garg, eða öllu heldur þessi söngur, er misjafnlega fluttur. Sumir hafa bara ekki mjög góða rödd fyrir þennan sið, sem kallaður er Adhan. Aðrir leggja sig ekki mikið fram, en Muezzininn - sá sem er ábyrgur fyrir bænakallinu - er yfirleitt valinn í hlutverkið vegna stundvísis og sönghæfileika. Það sem er sungið er misjafnt milli trúarafbrigða, en byrjar yfirleitt á einhverju á borð við: “Guð er bestur. Ég ber þess vitni að enginn annar en Guð er verðugur tilbeiðslu,” og svo framvegis - eitthvað sem Kristið fólk ætti alveg að geta sætt sig við (þótt það sem komi næst á eftir falli þeim hugsanlega minna í geð).

Þegar þetta er skrifað heyi ég kirkjuklukkur óma fyrir utan gluggann minn. Nokkrar kirkjur eru að sammælast um það að nú sé klukkan níu um morgun, og því beri mér að hlusta hamaganginn í þeim. Vandinn er sá að klukkan er ekki níu um morguninn lengur, heldur átján mínútur yfir, og hávaðinn hefur staðið yfir í tæpan hálftíma. Flestar kirkjurnar í hverfinu þar sem ég er í augnablikinu eru með margar litlar og hĺjómfagrar bjöllur sem taka sig saman um að framkalla einhverskonar ljúft en óskiljanlegt lag. Kirkjan sem er næst rúminu sem ég var að reyna að sofa í er hinsvegar bara með tvær stórar hvellar bjöllur sem eru slegnar á rétt tæplega sekúndufresti, nú í rúmlega tíu mínútur.

Misjafn er trúarhávaðinn. Á ýmsum stöðum á Balkanskaganum hleypa kirkjur af háværum flugeldum í byrjun hvers dags - það er meira pirrandi en bjöllurnar, ekki síst þegar maður hefur ekki kynnst þeim sið áður og fer að spyrja sig hvurn andskotann er í gangi. Í Kostaríka var gjarnan hleypt af einu fallbyssuskoti klukkan sjö hvern morgun, nægilega nálægt staðnum þar sem ég gisti til að ég vaknaði með fælum þegar byggingin tók að hristast og ég taldi mig vera fórnarlamb hryðjuverka. Ekki bætti úr skák að Barack Obama var í öðru hóteli aðeins ofar í götunni fyrsta sinn sem ég vaknaði við þetta, og hélt ég í dágóða stund að nú yrðu ferðaplönin mín eitthvað flóknari.

Sumsstaðar virðast bjöllurnar og það allt hafa þann tilgang að gera fólk meðvitað um gang tímans eða láta vita af því að trúarsamkoma er að fara að hefjast, en annarsstaðar virðast þær eingöngu ætla að tryggja að enginn geti sofið út.

Hafandi vaknað við trúarhávaða ansi víða ætla ég að fá að fullyrða aðeins: Það er enginn trúarhávaði sem ég hef kynnst skárri en vel sunginn Adhan. Þegar ég vann í Afganistan var moska handan götunnar frá dvalarstað mínum, og ég vaknaði klukkan fimm hvern morgunn við söng - hann byrjaði rólega og tónaði sig upp, “Allah-hu akhbar!” Svo byrjaði hann aftur lágt og tónaði dásamlega: “Ash-hadu an-la ilaha illa llah”. Sunni múslimar eru þó ekki alveg lausir við húmorinn, því eitt af því sem er sungið í fyrsta bænakalli dagsins er “bænir eru betri en svefn”. Ég hlustaði alltaf á þessi spekingslegu orð, flutt á Arabísku af manni sem kunni orðin utanbókar en hafði jafn lítinn skilning á þeim og ég, og snéri mér svo á hina hliðina og sofnaði aftur. Það er brjálæðislega þægilegt að vakna við bænaköll.

Trúarhávaði er fylgifiskur margra trúarbragða. Sem trúlaus maður hef ég enga sérstaka löngun til að heyra hindurvitnin boðuð með bjöllum, fallbyssum, sprengingum og gargi, en sem íbúi í samfélagi þar sem fólk er misjafnt og fjölbreytt finnst mér mikilvægt að allir fái að boða þau hindurvitni sem þeim langar til. Og sem gaur sem finnst gott að sofa út á morgnanna - þó það sé ekki lengur en til níu - þá vil ég miklu frekar mínaretur og fallega syngjandi Muezzina en klingjandi klukkur.

Nú er klukkan orðin tíu hér. Bjöllurnar eru ekki enn hættar. Ég fæ víst ekkert að sofa út í dag.