Contents

Viðhorf til ESB

Ég ræddi á Austurvelli um síðustu helgi um þing og ákvarðanarétt í gegnum myndlíkingu sem Willi Rothley bjó til fyrir mörgum árum. Mér fannst eiginlega rétt að reyna að skýra aðeins betur hvað mér finnst um Evrópusambandið, þótt ræðan sem slík fjalli um annað.

{% youtube Y6SV2Gx6G_o %}

Í grunninn finnst mér einstaklingsfrelsið vera svo mikið lykilatriði að ég lít svo á að allt sem dregur úr einstaklingsfrelsi sé af hinu illa. Réttur hvers og eins til að taka ákvarðanir um þau mál sem varða hann sjálfan er lykilatriði.

Fyrir vikið hef ég verið mjög gagnrýninn á Evrópusambandið í mörg ár. Hugmyndin um að færa valdið lengra í burtu frá almenningi stingur svo rosalega í stúfa við hugmyndir um einstaklingsfrelsi.

Die Wurstmaschine

En þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Fyrir þorra fólks á Íslandi skiptir það akkúrat engu andskotans máli í praxís hvort það sé ráðskast með hag þess úr steinhúsi á Austurvelli og gömlu fangelsi á Lækjargötu, eða úr glerturni á Schumanntorgi og steinsteypuklessu við Place de Luxembourg. Sjálfsákvörðunarrétturinn er jafn lítill í báðum tilfellum.

Nema hvað, eins og staðan er í dag, þá er hvort tveggja tilfellið. Stór hluti þeirra laga sem við lifum við hefja göngu sína sem tillögur frá Schumanntorgi, þar sem her af pólisíugreinendum skrifaði upp orðrétt hugmyndir sem fulltrúar ýmissa stórfyrirtækja lögðu til. Tillögunum er svo vísað yfir til Place de Luxembourg, þar sem tönglast er á þeim í einhverja mánuði meðan þúsundir lobbýista leggja til orðalagsbreytingar.

Þegar einhver kurlanna eru komin til grafar byrjar svo fjörið. Að næturlagi, einu sinni á mánuði, fer her af fólki í gegnum höllina við Place de Luxembourg og flytur fullt af stórum rauðum kössum, pakkfullum af allskyns skjölum, niður í lest sem stoppar í lestarstöð undir höllinni. Lestin flytur skjölin í aðra höll - sem við vinirnir kalla dauðastjörnuna - í Frakklandi. Önnur lest flytur svo nokkur þúsund starfsmenn þangað, en þegar þau koma þangað er búið að skilja rauðu kassana eftir fyrir utan réttar skrifstofur.

Þetta fyrirkomulag með rauðu kassana er sérstakt, og minnir mig helst á dabbawala fólkið í Mumbai, sem safnar saman milljónir nestisboxa á hverjum morgni úr heimahúsum fólks og skilar þeim á réttar skrifstofur. En hvað um það.

Í dauðastjörnunni sitja Darth Vader og sjö hundruð bestu vinir hans í hálfhring og ákveða hvort hugmyndin verði að veruleika eða ekki. Gangi það eftir fer skjalið aftur til Brussel frá Strassborg, þar sem það er tekið fyrir í enn einni höllinni. Í þeirri höll sitja ráðherrar allra aðildarríkjanna (þó ekki nema stundum) og veita svo sína blessun.

Þetta ferli er stórkostlega furðulegt. Þýski evrópuþingmaðurinn Willi Rothley lýsti þessu sem pylsuvél - die wurstmaschine. Hann sagði að pylsuvélin þyrfti alltaf að vera að framleiða eitthvað, alveg sama hvort það væri gagnlegt eða ekki.1

/img/2014-04-01-europarl.jpg

Að eiga ferli

Þetta alltsaman kann að hljóma nokkuð ógeðslega, en svona verða lögin okkar til. Alþingi samþykkir auðvitað lög líka, sem einhverjir í ráðuneytunum hafa sett saman. Satt að segja er ferlið þar ekki beinlínis verra - bara öðruvísi. Líklega ekki jafn skrýtið, en samt, hafiði horft á þetta?

Helsti munurinn á þessum tveimur ferlum, sem bæði leiða af sér íslensk lög, er að í öðru þeirra taka þátt einstaklingar sem við kusum þangað. Í hinu taka þátt einstaklingar voru kosin þangað af 500 milljón manns sem eru ekki við, ásamt hópi einstaklinga sem enginn kaus þangað, heldur voru valin af forsætisráðherrum aðildarríkjanna og samþykkt af þinginu.

Niðurstöðu síðustu kosninga má kannski túlka sem merki um að kannski sé ágætt að íslenskir kjósendur fái ekkert að hafa puttana of mikið í þessu öllu. Þegar fólk fær að taka fullorðins ákvarðanir er voðalega erfitt að réttlæta það þegar það lætur gabba sig eins og smábörn.

Nema hvað það er einmitt málið: sé fólk hlynnt einstaklingsfrelsi hlýtur að felast í því frelsi til að vera fáviti. Lýðræði má vel vera samansafn af fávitum, en ég myndi samt velja það fram yfir stjórnkerfi þar sem almenningur fær ekki að hafa nein áhrif á ákvarðannir sem sig varða. Og nú er það einusinni þannig að alls ekki allir kjósendur á Íslandi eru fávitar. En allt of margir tóku það ferli að kjósa fólk á Alþingi sem sjálfsögðum hlut og gengu að mest glansandi gylliboðinu, þótt það hefði ekki tekið nema nokkrar mínútur með grunnskólastærðfræði að sjá að það gengi ekki upp.

En Íslendingar fá ekki að vera með puttana í Evrópsku pylsuvélinni. Við eigum ekki ferlið. Við eigum ekkert í ferlinu. Og því er Evrópa þögull harðstjóri okkar. Þær ákvarðannir sem Evrópusambandið tekur eru þess eðlis að við fáum ekki að vera upplýst um þær, við fáum heldur ekki einusinni að vera fávitar þar, við eigum bara að sitja og hlýða.

Viðskiptafrelsi með og án EES

Einfaldast væri auðvitað að sleppa þessu Evrópukjaftæði. Það þjónar hagsmunum einstaklinga best að minnka miðstýringu, og Evrópusambandið eykur það.

En aftur er þetta ekki alveg svona einfalt. Það eru nefnilega til fleiri tegundir af ákvarðannatöku en pólitísk. Ein sú tegund er hagræn: við tökum ákvarðannir í hvert skipti sem við leggjum krónur á borð. Ég hef annarsstaðar talað um peninga og atkvæði sem þau tvö formlegu kerfi sem við höfum til að miðla vilja.

Flest lönd í heiminum eru með einhverskonar reglur um hvað gerist þegar vörur eða þjónusta eru seld yfir landamæri. Oft er þetta skattlagt eða tollar og gjöld tekin. Lönd gera gjarnan með sér fríverslunarsamninga til að auka flæði sín á milli og draga úr kostnaði. Þetta er fullkomnlega eðlilegt ef maður gefur sér það að tollar og gjöld séu eðlileg, en það má líka gagnrýna það að landamæri séu notuð til að setja hendingslegar reglur um viðskipti. Það má líka gagnrýna tilvist landamæra.

Þetta var alltsaman gert í Evrópu eftir seinni heimstyrjöld. Gagnrýni á þjóðríki og þeirra tilhneygingu til að beita valdi bæði inn á við gagnvart alþýðunni og út á við gagnvart öðrum ríkjum, var uppistaðan í Ventotene manifestóinu sem Altiero Spinelli skrifaði árið 1944. Hann sagði þar að sambönd eins og þjóðabandalagið væru gagnslaus, því að “samkvæmt þeim skyldi hvert samfélag vera frjálst til að velja þá alræðisstjórn sem því hugnaðist best, eins og samsetning hvers þessarra einstöku ríkja væri ekki tilvistarspursmál fyrir öll hin evrópsku ríkin."2

Niðurstaðan varð ekki alþjóðleg, heldur evrópsk, því þar lá áhugi Spinellis og Spaaks3 og annarra. Úr varð sá skilningur að ríki sem væru bundin efnahagslegum og pólitískum böndum væru síður líkleg til að heyja stríð hvort við annað. Ísland ákvað að taka þátt í þessu apparati fyrir tilstilli Jóns Baldvins Hannibalsonar og ýmissa annarra í byrjun tíunda áratugsins, en þó ekki nema að takmörkuðu mæli - í stað þess að ganga í Evrópubandalagið sem var og hét, þá gerðist Ísland aðili að EES.

Frá frjálslyndu sjónarmiði verður þetta skref skilið þannig að fólk var til í að fórna smávegis af sjálfstæði þjóðríkisins fyrir aukið viðskiptafrelsi.

Í dag er viðskiptafrelsi Íslands við Evrópu uppistaðan í tilvist hagkerfisins. Hér um bil öll lönd eru farin úr EFTA, og þótt það ríki samningar milli EFTA og Evrópusambandsins duga þeir skammt. Ég er á því að EFTA sé einn besti fríverslunarsamningur sem hefur verið gerður: hann er einfaldur, öflugur, og öll ferli eru skýr. En einmitt vegna þess hve einfaldur hann er hentar hann illa þeim löndum eins og Bretlandi og Þýskalandi, sem hafa mjög víðfem og flókin hagkerfi - það er auðvelt að skilja hvers vegna þeir vildu úr honum og í sterkara samband.

Það er frekar augljóst að án EES samningsins færi hagkerfi Íslands aftur til ársins 1960 á augabragði - það væri eins og hvorki EES né EFTA hefði átt sér stað. Auðvitað yrði þetta ekki þannig að fólk færi aftur í torfkofana. Allir þeir innviðir sem hafa byggst upp síðan að Nýsköpunarstjórnin var við völd myndu halda áfram að vera til, og lífsgæðin há eftir því. En verð á erlendum vörum myndi líklegast hækka töluvert, og möguleikar Íslands á útflutningi á vörum til Evrópu myndi minnka. Helsta ástæðan fyrir því væri að Ísland myndi tapa því sem kallað er “most favored nation” stöðu gagnvart Evrópusambandinu.4

Einhverjir hafa bent á möguleikanna á að skipta út EES samningnum fyrir aðra viðskiptasamninga. Páll Vilhjálmsson skrifaði í gær að fríverslun utan ESB væri betri kostur en innganga í sambandið, á þeim rökum að ESB skeytir lítið um hið sértæka og einbeitir sér að almennum fríverslunarsamningum. Um þetta er tvennt að segja: annars vegar þurfti Össur Skarphéðinsson að beita sínu ráðuneyti verulega vel og lengi til að ná fríverslunarsamningnum við Kína, og ólíklegt að Gunnar Bragi eða nokkur eftirmanna hans muni geta landað nógu miklum samningum nógu hratt til að bæta fyrir tap á EES samningnum. Hins vegar er þetta bara einfaldlega ekki rétt. Evrópusambandið er með í dag fjöldan allan af sértækum viðskiptasamningum við hin ýmsu lönd, þótt eiginlegir fríverslunarsamningar séu fáir. Til að mynda eru sérákvæði í fríverslunarsamningi ESB við Perú og Kolombíu um álagningu á mosa. Já. Mosa. 10% kaupverðs, takk fyrir - væntanlega til að vernda mosaiðnaðinn á Eistlandi.

/img/2014-04-01-mosi.jpg

Hvað er þá í boði?

Það er eiginlega bara þannig að viðskiptafrelsi við önnur lönd skiptir meira máli en hér um bil allt annað fyrir nútíma þjóðríki. Þau eru fá löndin sem eru algjörlega einangruð frá milliríkjaviðskiptum, og þau eru ekki beinlínis þekkt fyrir að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði. Norður Kóreiskar vefnaðar- og glervörur eru ekki óþekktar á vesturlöndum, en þær eru heldur ekki beinlínis þekktar.

Þetta er einfalt: Ísland getur ekki farið út úr EES án þess að hagkerfinu okkar sé tortímt. Ef einhver í valdastöðu myndi leggja slíkt til væri sá hinn sami að sýna á sér stórkostlegt ábyrgðarleysi. Kannski verður það einhverntíman mögulegt, en ekki á næstu áratugum eins og staðan er í dag.

Á sama tíma vofir Evrópusambandið enn yfir okkur - þögulli harðstjórinn. Við höfum ekkert um það að segja hvað gerist þar, og því hvað gerist fyrir okkur.

Ég sé samtals þrjá möguleika sem eru misraunhæfir:

  1. Ganga út úr EES: Útilokað af efnahagslegum ástæðum.
  2. Halda stöðunni óbreyttri: Óæskilegt vegna skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti.
  3. Ganga inn í ESB.

Ha, hvað sagðirðu?

Ekki misskilja mig. Ég er ekki að segja að ég vilji ganga í Evrópusambandið. Ég er ekki viss. Mig langar að vita meira og skilja betur á hvaða hátt það skaðar okkur að ganga inn, en ég er á því í dag að það viti það enginn. Öll umræðan um Evrópusambandið einkennist af nær algjöru þekkingarleysi. Þeir sem tala gegn Evrópusambandinu vita oftast ekki rassgat um það, og þeir sem tala fyrir því eru flestir með svo mikinn geðveikisglampa í augunum að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að þau séu að halda öllum staðreyndunum til haga. Rósarauðu gleraugun eru stundum blóðrauð. Allir hálfblindir.

Greiningin mín á stöðunni er að það skaðar okkur að halda stöðunni óbreyttri og það skaðar okkur meira að víkja undan valdi Evrópusambandsins eins og staðan er í dag.

Hvort þetta sé eitthvað sem ákvarðar hvort við viljum ganga inn eða ekki snýst fyrst og fremst um hvernig við metum hagsmunina. Það getur vel verið að við lítum svo á, eftir að samningsdrög hafa verið gerð, að skaðinn sem við myndum verða fyrir með inngöngu sé meiri en skaðinn sem við verðum fyrir með óbreyttu ástandi.

Það sem hlýst upp úr því að ganga í gegnum viðræðuferlið er að við fáum að vita hvað innganga táknar. Ef við gæfum þessu stig gæti maður sagt að það að ganga út úr EES sé -1000, það að vera áfram í EES er -10, og það að ganga í ESB er einhver óþekkt stærð, x. Ef x < -10, þá ættum við ekki að ganga inn. Ef x > -10, þá ættum við að ganga inn. Ef x > 0, þá væri beinlínis ábati af inngöngu. Ef x = -10 þá erum við í áhugaverðri pattstöðu.

Hver velji sér svo sín gildi. Það er hlutverk þeirra sem sjá um að semja að finna út gildið á x.


  1. “Die Wurstmaschine muss ständig immer irgendetwas produzieren. Ob das sinnvoll ist oder nicht spielt doch überhaupt keine Rolle.” ↩︎

  2. “Assurdo è risultato il principio del non intervento, secondo il quale ogni popolo dovrebbe essere lasciato libero di darsi il governo dispotico che meglio crede, quasi che la costituzione interna di ogni singolo stato non costituisse un interesse vitale per tutti gli altri paesi europei.” ↩︎

  3. Reyndar var Poul Henri Spaak einnig nátengdur stofnun Sameinuðu Þjóðanna. Frekar mikill sveimhugi, sá. ↩︎

  4. Einhverjir hafa raunar fært rök fyrir því að evrópska fjórfrelsið glatist ekki við útgöngu úr ESB eða EES vegna skorts á niðurfellingarmöguleika í samningunum, en ég hef ekki verið sannfærður um að það sé tilfellið, hvorki löglega né í raun ef það myndi eiga sér stað, að hluta til vegna óljósrar stöðu Grænlands. ↩︎