Contents

Óhentugleiki réttinda

Contents

Mér finnst ógeðslegt hversu margir virðast til í að segja að stjórnarskrárvarin réttindi fólks megi bara fjúka um veður og vind því það stafa af þeim réttindum einhver óþægindi um hríð.

Það er einmitt ekki þegar allt leikur í lyndi sem það þarf að standa vörð um réttindi fólks, heldur þegar komið er í hart.

Réttur til réttlátrar málsmeðferðar skiptir fólk engu máli fyrr en þau eru komin í málaferli. Tjáningarfrelsi skiptir ekki máli fyrr en einhver reynir að hefta tjáningu. Friðhelgi einkalífsins er ekki mikilvægur fyrr en einhver hnýsist. Almennt: réttindi skipta ekki máli fyrr en þeim er beitt, eða reynt er að brjóta gegn þeim. Fram að því eru réttindi einungis greinar í stjórnarskrá sem maður vonar að maður þurfi aldrei að nota.

Þess vegna verðum við að verja þessi réttindi alltaf. Alltaf. Þótt þau séu stundum óhentug. Þótt þau valdi stundum vandræðum.

Að setja lög á verkföll er brot gegn mikilvægum rétti: rétti fólks sem er efnahagslega háð því að vinna fyrir annað fólk, til að gera kröfur um laun, aðstöðu og lífsgæði. Væri enginn efnahagslega háður því að gefa fjármagnseigendum hluta af vinnu sinni væri engin þörf á verkfallsrétti.

En þar sem fólk er háð því að vinna fyrir fjármagnseigendur og fyrirtæki eru almennt ekki lýðræðisleg - lýðræðið hættir um leið og maður mætir í vinnu á morgnanna - þá verður verkfallsrétturinn að vera til, og þingið ætti að sjá sóma sinn í að verja þann rétt.

Auðvitað þarf að grípa inn í þegar fólk fer í verkfall. En það inngrip á ekki að vera inngrip í þágu fjármagnseigendanna til að halda status quo, heldur á það að vera inngrip í þágu samfélagsins til að reyna að hámarka réttlætið. Þess vegna erum við jú með ríkissáttasemjara. Hann kemur fyrir hönd samfélagsins í heild til að miðla málum og reyna að sætta deilur fjármagnseigenda og starfsfólks.

Ef meirihluti Alþingis telur að verkfallsréttur sé réttur sem skiptir ekki máli, þá væri ágætt að þau myndu leggja fram frumvarp til breytinga á Stjórnarskrá, sem fellir brott 75. gr., eða jafnvel breytir henni þannig:

  1. gr. Allir skulu vinna þá vinnu sem þeim er sagt að vinna, nema þeir séu ríkir. Þá mega þeir gera það sem þeim sýnist. Ef fólk leggur niður störf án leyfis má refsa þeim samkvæmt heimild í lögum.

Kannski þetta falli betur að því réttindafyrirkomulagi sem íslenskum stjórnvöldum hugnast.