Contents

Baul bullukollanna

Contents

Það er ekki algengt í íslenskri stjórnmálaumræðu að hlutir séu sagðir með skýrum og afgerandi hætti svo ekki verði um villst. Því verður að teljast óþolandi þegar fullorðið fólk leikur sér að því að snúa út úr, þegar það er gert. Vandinn er að erfitt er að sanna að menn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Bjarnason séu að snúa út úr, en séu ekki bara svona heimskir. Ýmislegt styður hvora tilgátuna.

Svo þetta sé gert alveg skýrt, enn og aftur:

Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

Upplýsingafrelsi snýst ekki um að allar upplýsingar séu opnar öllum alltaf, heldur að flestar upplýsingar séu opnar flestum alltaf, en sumar upplýsingar séu verndaðar, alltaf. Línan er dregin á skýrum stað: ef upplýsingar eiga erindi við almenning og það þjónar almannahagsmunum að þær séu opinberar, þá skulu þær vera opinberar. Ef upplýsingar eru persónulegar og koma engum við, þá skulu þær vera friðhelgar.

Það er ekki flókið að skilja þetta. Að forsætisráðherra landsins skuli eiga erfitt með að skilja einföld grunnatriði er grafalvarlegt. Neyðist maður til að spyrja sig hvaða önnur grunnatriði hann eigi í vandræðum með. Sem betur fer er Björn Bjarnason hættur að geta valdið skaða í íslensku samfélagi, nema með bauli sínu.