Contents

Bananinn

Mikið tuðfár hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum eftir að ég lýsti þeirri skoðun minni á dögunum að Ólafur Ragnar Grímsson ætti ekki að bjóða sig aftur fram til forseta. Fólk kepptist við að kalla mig ýmsum nöfnum og misskilja það sem ég var að segja, ásamt því að hrópa upp yfir sig um ágæti Ólafs.

Fyrst þetta gekk svona vel síðast langar mig til að kalla yfir mig aðra ræpu af illa útpældum upphrópunum, með því að reyna að færa ögn betri rök fyrir máli mínu.

Forseti vor

Ólafur Ragnar Grímsson hefur að ýmsu leyti staðið sig vel sem forseti þau tæplega tuttugu ár sem hann hefur gengt því embætti. Á þessum tæplega tveimur áratugum hefur hann verið klappstýra fyrir landið alveg sama hvernig viðraði, og á nokkrum mikilvægum stundum breytt rétt með því að nýta málskotsrétt stjórnarskrár. Hann hefur beitt sínu embætti í þágu loftslagsmála og annarra mikilvægra málefna á heimsvísu.

Auðvitað hefur hann ekki verið fullkominn, og er ekki hafinn yfir gagnrýni, en hann hefur heldur aldrei þóst vera það, eftir því sem ég best veit. Enginn er fullkominn.

Gagnrýni mín á möguleikanum á áframhaldandi setu hans í forsetastól er því ekki gagnrýni á hann sem mann, né á hann sem forseta.

Það sem þetta snýst um er lýðræði.

Nýir þátttakendur í lýðræði

Nú segja einhverjir, “ef við kjósum hann aftur, þá er það lýðræði!” – en það er ekki öll sagan. Fleira kemur til.

Lýðræði snýst ekki bara um að kjósa einu sinni á fjögurra ára fresti. Það snýst um fólk og um vald, og umfram allt um samtal samfélagsins við sjálft sig um hvernig það vill vera skipulagt. Til þess að geta átt þannig samtal þá þurfum við að geta gert okkur grein fyrir því hvaða möguleikar eru til staðar, og við þurfum að prófa nýja hluti.

Vandinn sem kemur upp þegar þrásetið er í embættum, hvort sem það er í forsetastól, í ráðuneyti, eða á þingi, er að það hægist á samtalinu. Við lærum ekkert nýtt um hvernig samfélag við gætum orðið, og vitum því hvorki hvað er æskilegt né hvað ber að forðast. Fólk verður íhaldssamara, og lærir að óttast breytingar.

Sér í lagi, þegar ungt fólk bætast í hóp kjósenda, og það hefur aldrei séð hvernig hlutirnir gætu verið öðruvísi, er hætt við að áhugi þeirra á því að breyta samfélaginu með pólitískri þátttöku verði lítill eða enginn.

Hugarfarssvindl

Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í næstum því tuttugu ár. Í flestum þeim löndum þar sem menn hafa setið í valdastólum í þetta langan tíma er pólitísk afturhaldssemi svo mikil að fólk er löngu hætt að trúa á pólitískar framfarir. Fólk ýmist kýs sama manninn aftur og aftur af gömlum vana, eða það nennir ekki einu sinni að mæta á kjörstað, vitandi að það er ekki val hvort eð er. Þau vita að það breytir engu hvað þau gera, niðurstaðan er fyrirfram ákveðin.

Niðurstaðan getur verið fyrirfram ákveðin á ýmsa vegu. Kosningasvindl er augljós möguleiki og raunverulegur víða, en sem betur fer hefur ekki þekkst á Íslandi. Annar möguleiki er það sem ég ætla að kalla ‘hugarfarssvindl’: það þegar hugarfarið er orðið þannig hjá fólki, að það svindlar á sjálfu sér.

Hugarfarssvindl er svakalega algengt á Íslandi. Hugarfarssvindl birtist meðal annars í flokkshollustu (jafnvel þegar gamli flokkurinn manns svíkur mann aftur og aftur), löngun til að halda í hefðir (jafnvel þegar þær hefðir valda augljósum samfélagslegum skaða), og hræðslu við hið ókunnuga.

Nú er ég ekki að segja að allar hefðir séu slæmar, að flokkshollusta sé alltaf slæm, eða að hið ókunnuga sé alltaf jákvætt. Alls ekki. Ég er bara að segja að fólk eigi ekki að svindla á sjálfum sér með því að trúa því að allt sé fínt eins og það er, og að allt sem er nýtt hljóti augljóslega að vera hættulegt og slæmt.

Að Ólafur Ragnar haldi ekki áfram sem forseti skiptir máli af því að heil kynslóð fólks er nú uppkomin sem hefur aldrei þekkt neitt annað en Ólaf forseta. Heil kynslóð af fólki sem veit ekki hvernig það er að hafa einhvern á Bessastöðum sem hefur öðruvísi skoðanir, lítur öðruvísi út, talar öðruvísi, hugsar öðruvísi.

Þetta skiptir máli, því allt breytist nema það sem við kjósum að breyta ekki.

Reynsluleysi

Svo er annað, og hugsanlega mikilvægara.

Ólafur Ragnar hefur gríðarlega reynslu í forsetastarfinu. Það er rétt. Það eru bara tveir núlifandi einstaklingar sem hægt er að segja það um. Núll þeirra hafa miðlað af reynslu sinni af forsetastörfum til nýrra kynslóða í neinu verulegu mæli.

Hluti af tilgangnum með að skipta reglulega um fólk í hinum ýmsu pólitísku störfum er að byggja upp reynslu og þekkingu í samfélaginu. Ímyndið ykkur hvað það hefði verið mikill akkur fyrir íslensku þjóðina, ef Ólafur Ragnar hefði tekið 4-8 ár í forsetastóli og farið svo aftur að kenna stjórnmálafræði, reynslunni ríkari.

Þessi tilhneyging okkar að láta reynslumikla stjórnmálamenn setjast í helgan stein, eða þaðan af verra, í ritstjórnarstól Morgunblaðsins, er sólundun auðlinda. Þetta er eins og að senda starfsmann hjá fyrirtæki í margra ára langt námskeið á kostnað fyrirtækisins, og þegar hann er útskrifaður, þá er hann settur á biðlaun.

Horfumst í augu við smá staðreynd: forsetaembættið er frekar tilgangslaust. Það hefði hver sem er getað vísað Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu – fjandinn hafi það, þjóðin sjálf hefði getað ákveðið að gera það, ef hún hefði lagaleg úrræði til. Það þarf engan snilling til að kvitta undir lög eða fara með forsetavald, eins og sást iðulega þegar Óli fer erlendis og skilur forsetavaldið eftir (að hluta) hjá Sigmundi Davíð.

En eitt gerir forseti Íslands sem gerir hann virkilega áhugaverðan: Hann á samskipti við erlenda þjóðhöfðingja og svamlar í pólitíkinni bæði á Íslandi og erlendis. Hver sá sem sinnir þessu embætti hefur ótrúlegt tækifæri til að gera góða hluti í heimspólitíkinni, og hefur svo ótrúlega ríka skyldu til að miðla af þekkingu sinni til næstu kynslóða þegar hann lætur af embætti.

Sama mætti segja um fleiri í mikilvægum pólitískum stöðum. Það lítur út fyrir að utanríkisráðuneytið sé að breytast í útungunarstöð fyrir verðandi yfirmenn hjá Sameinuðu Þjóðunum.

Að Ólafur Ragnar haldi ekki áfram sem forseti skiptir máli af því að heil kynslóð fólks er nú uppkomin sem hefur aldrei notið góðs af því að hafa kennara í stjórnmálafræði eða alþjóðasamskiptum sem hefur þá umfangsmiklu reynslu sem safnast á fremstu víglínu.

Þetta skiptir máli, því ekkert lærist nema það sem er kennt.