Contents

Lágmarksríki Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð kom engum á óvart með tillögum sínum um sameiningar og fækkanir ríkisstofnana. Það sem kom hinsvegar á óvart var hve lélegar hugmyndirnar voru. Í fyrstu hljómaði þetta eins og skynsöm nálgun í ákveðnum tilfellum, enda yfirbygging oft mikil utan um litla starfsemi. En nánari skoðun sýnir að tillögurnar eru illa rökstuddar og vandkvæðum háðar.

Jónas Kristjánsson benti á að rekstrarkostnaður íslenska ríkisins sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu er í meðallagi miðað við OECD. Önnur málsgrein skýrslu viðskiptaráðs er því ósönn. Svo stór rangfærsla í inngangsorðum skýrslu af þessu tagi dugar til að afskrifa skýrsluna – hún getur ómögulega verið vönduð ef menn bulla út í loftið. En hugmyndin er forvitnileg; lesum áfram.

Hvað er heppileg yfirbygging?

Sú regla sem ég tamið mér er að yfirbygging eigi ekki að fara fram úr 14% af rekstrarkostnaði, og eigi helst að vera minni. Það er afar sjaldgæft að sjá hana fara niður fyrir 8%. Ef við tökum dæmi um litla ríkisstofnun með fjóra starfsmenn þar sem einn sinnir aðallega stjórnsýslulegum atriðum svo sem launamál, skýrslugerð til ráðuneytis, og þar fram eftir götunum, þá er yfirbyggingin þá strax orðin um eða yfir 25%, án þess að húsnæði, skrifstofuföng, þrif, veitur og annað sé talið.

Svo litlar ríkisstofnanir eru sjaldgæfar, og ég veit að yfirbyggingin er hagrædd í þeim tilfellum til að auka skilvirkni, t.d. með samvinnu við aðrar stofanir. Flestar ríkisstofnanir eru stærri, og oftast þá skilvirkari fyrir vikið.

Þar sem bókhald ríkisstofnana er ekki opið er ómögulegt að segja nákvæmlega hvaða hlutfallstölu yfirbyggingin hefur. En jafnvel minniháttar þekking á starfsemi íslenska ríkisins leiðir mann í allan sannleik um að yfirbyggingin sé oftast lítil – stundum jafnvel of lítil, með tilheyrandi álagi á starfsfólk.

Hvað felst í tillögunum?

Í tillögum viðskiptaráðs er gengið nokkuð langt með að sameina og leggja niður ríkisstofnanir. Ein tillagan er að sameina Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði við Heilbrigðisstofnun Vestjarða. Þetta gæti verið góð hugmynd eða ekki. Besta leiðin til að komast að því er að ræða við Heilbrigðisstofnun Vestjarða, þar sem sú sameining átti sér stað árið 2014.

Þegar maður takur eftir svona villum í tillögunum, þar sem menn hafa ekki unnið heimavinnuna sína, spyr maður hvaða tilgangi þetta þjónar.

Það virðist vera einbeitt markmið Viðskiptaráðs að auka miðstýringu.

Lagt er til að allir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu séu reknir sem ein eining. Þar er ráðist gegn sérkennum hvers skóla: þótt launadeildir og skrifstofur séu sameinaðar næst engin sérstök hagræðing, nema að skólastjórnendum sé fækkað líka. Það er ekki gert öðruvísi en að setja allt kerfið í hendurnar á færri einstaklingum, með færri hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina.

Lagt er til að allir sýslumenn séu settir í eina rekstrareiningu. Þar gleymist að sýslumenn eru dreifðir einmitt til þess að auka nálægð þeirra við borgaranna, og hlutverk þeirra sem millistjórnsýslustig hverfur ef þeim er miðstýrt frá Reykjavík – hér er um höfuðborgarvæðingu að ræða. Skýrsluhöfundar virðast ekki vita hversu mikil samvinna er nú þegar milli sýslumannsembætta.

Skrýtin skotmörk

Ein tillagan snýr að Íbúðalánasjóði. Þar sem segir: “Dæmi um óþarfa ríkisstofnun er Íbúðalánasjóður. Reynslan sýnir að hið opinbera á ekki að starfrækja útlánastarfsemi á fasteignamarkaði, en áætlað heildartap skattgreiðenda vegna útlána Íbúðalánasjóðs nemur hundruðum milljarða króna.”

Þessari fullyrðingu fylgir tilvísun í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, án þess að nánar sé greint frá því hvað er verið að vísa í í þeirri skýrslu. Það er ekki hægt að draga þann lærdóm af skýrslunni að vandamál Íbúðalánasjóðs hafi sérstaklega tengst því að íslenska ríkið starfrækti þá stofnun. Það þarf nokkuð frjálslegan lestur til að fá þá niðurstöðu.

Þvert á móti hefur Íbúðalánasjóður, þrátt fyrir ýmsa galla í rekstri sínum (sem skýrslan tínir ágætlega til), verið eitt helsta bakbein fasteignaviðskipta á Íslandi áratugum saman, og gert það mögulegt fyrir marga að eignast íbúð sem gætu það annars ekki. Það að tala um Íbúðalánasjóð sem “óþarfa” er í ljósi staðreyndanna fyrst og fremst hugmyndafræðileg fullyrðing.

Næturverðirnir

Skýrsla Viðskiptaráðs er gegnsýrð af hugmyndinni um lágmarksríkið. Í sinni ýktustu mynd er það sú frjálshyggjufantasía að ríki eigi ekki að sinna neinum öðrum verkefnum en að framfylgja eignarrétti með valdbeitingu. Í ögn raunsærri mynd hefur verið talað um “næturvarðaríkið”: ríki sem heldur uppi löggæslu, neyðarþjónustu, dómstólum, her, og annarskyns valdbeitingu, ásamt þeirri yfirbyggingu sem er nauðsynleg til að tryggja rekstur þess. Í einhverjum útgáfum þessarar hugmyndar er einnig gert ráð fyrir að lýðræðislegt þing sé til staðar, en alls ekki öllum.

Viðskiptaráð gengur augljóslega ekki þetta langt, en það er næsta víst að skýrsluhöfundar hafi klappað sér duglega á bakið fyrir það hvað þeir voru hófsamir og raunsæir.

Þegar talað er um lágmarksríki þá spyr ég mig: Lágmarksríki hvers? Það virðast fylgja þær forsendur að allir í landinu séu heilbrigðir, fjárhagslega vel stæðir, hafi greiða leið að menntun, húsnæði, lánsfé, og allri nauðsynlegri grunnþjónustu, og að fólk hafi enga sérstaka ástæðu til að óttast valdbeitingu.

Fæstir sem hafa lifað í raunveruleikanum í einhvern tíma uppfylla allar þessar forsendur nema með herkjum.

Lágmarksríki Viðskiptaráðs er lágmarksríki hinna ríku.

Það er ekkert strangt til tekið að því að minnka umfang ríkisins. Það er margt sem yrði ágætt að draga úr. En í hverju skrefi þarf að spyrja hvernig samfélag sú breyting gefur af sér, og hvort það sé gott samfélag. Ég er til að mynda ekki á móti því að leggja niður ÁTVR, en eingöngu sé það tryggt að þeir sem taka við því hlutverki geri það í það minnsta jafn vel og sú ríkisstofnun sem er til staðar í dag. Einnig tek ég eftir því að Viðskiptaráð minnist ekkert á Útlendingastofnun, en mér þætti full ástæða til að færa hlutverk Útlendingastofnunar inn í Þjóðskrá, sem sinnir nú þegar málefnum þeirra útlendinga sem koma af EES svæðinu.

Er eitthvað eftir?

Þrátt fyrir ofangreinda gagnrýni er eðlilegt að reyna að hagræða rekstur ríkisins. Í dag eyðum við um 43% af vergri þjóðarframleiðslu í að halda úti ríkisstofnunum, sem er alveg ágætt miðað við þróað ríki, en mætti samt alveg vera lægra.

Ríki eru misjafnlega rekin. Í landinu þar sem ég bý eru til að mynda þrír forsetar, þrettán forsætisráðherrar og ríkisstjórnir, og rúmlega áttatíu dómsstólar. Hagræðingarmöguleikarnir þar eru augljósir, þótt pólitíkin í raun leyfi það ekki.

Rekstur Íslands sætir stöðugri naflaskoðun. Auðvitað nálgast menn umræðuna með mismunandi hugmyndafræði að baki. Það er jákvætt. Áframhald þessarar umræðu er þó þeim skilyrðum háð að við getum tekið upplýstar ákvarðanir. Sameining og samrekstur út í loftið er eitt og sér ekki líklegt til að minnka rekstrarkostnað, en ef allt bókhald ríkisins væri opið væri auðvelt fyrir fólk að liggja yfir gögnunum og sjá hvar sóun er raunverulega til staðar, og hvernig væri hægt að minnka hana.

Að lokum er rétt að benda á að stundum hefur fjárhagsleg skilvirkni alvarlegan menningarlegan kostnað í för með sér. Þótt einhver myndi reikna að samanlögð vannýting á skólahúsnæði framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu næmi sem einum fjölbrautaskóla, þá væri ekki ástæða til að leggja þann skóla niður. Með því myndi menning tapast.

Förum varlega í að fórna menningu á altari lágmarksríkisins.