Contents

Að venjast eða verjast

Contents

Ég sat í algjörri veðurblíðu í Bangkok þegar stormurinn mikli gekk yfir Ísland. Skilaboð komu frá ættingjum og vinum á ýmsum tímum yfir daginn, tilkynningar um að nú væri allt vitlaust eða að þetta væri nú loks að ganga niður. Meðan ég sötraði sólríkt hanastél í sólinni hugsaði ég með mér: þetta venst.

Þetta venst.

Heimurinn stendur frammi fyrir því stórkostlega vandmáli að við, mannkynið, erum búin að eyðileggja umhverfið okkar. Ekki eru allar skemmdirnar komnar í ljós, en við fórum að sjá blikur á lofti fyrir rúmlega þrjátíu árum. Þegar við sáum í hvað stefndi ákváðum við að það væri betra að hundsa allar viðvaranirnar og vona að vandamálið hyrfi.

Að trúa því að vandamál hverfa ef maður hundsar þau er barnaskapur.

Í París er nú verið að reyna að komast að samkomulagi um framtíð mannkyns. Takist það getum við átt von á því að ýmislegt breytist. Takist það ekki mun ástandið versna og versna. Það er erfitt að segja hversu hratt eða hversu alvarlegt þetta verður, því þetta er flókið. En eitt er víst: flestar mannabyggðir standa við sjó, og þær gætu þurkast út.

Ef þið haldið að flóttamannavandinn vegna stríðsátakana í Sýrlandi sé slæmur…

En tölum aðeins um hvað er hægt að gera, því ég er bölvaður bjartsýnismaður alltaf hreint.

  1. Það væri hægt að setja tímamörk á bruna kolum, olíu og jarðgasi til raforkuframleiðslu. Þetta er miklu auðveldara en að skipta út bílaflotanum á heimsvísu, og væri framkvæmanlegt á innan við áratug ef vilji væri fyrir hendi.

  2. Það væri hægt að setja töluvert fjármagn í rannsóknir á kolefnisbindingu. Kolefnisbinding er ein helsta leiðin til að draga úr þeim skaða sem hefur áunnist, en aðferðirnar okkar eru frekar aumar enn sem komið er.

  3. Koltvísýringslosun er ekki nema hluti af vandamálinu. Önnur efni eru losuð í miklu magni sem hluti af ýmsum iðnaðarferlum. Það þarf að taka sum þeirra úr umferð. Það er óþarfi að hlaupa til og slökkva á öllum iðnaði, en það myndi borga sig að finna leiðir til að draga úr þessum efnum – og það mun kosta pening.

  4. Það þarf að auka verulega þróun rafbíla, og rafflugvéla.

Lesi maður þetta með það viðhorf að hér sé um einhverskonar hippadellu að ræða þá hljóma ég augljóslega eins og brjálaður maður sem er hluti af einhverskonar róttæku vinstri samsæri. Því samkvæmt því viðhorfi þá er það að afstýra stórslysi augljóslega samsæri. Er það ekki?

En sleppi maður hægri-vinstri kjaftæðinu, þá tala staðreyndirnar fyrir sig sjálfar. En ég er bölvaður bjartsýnismaður. Lítum á tækifærin!

Stórfelldar breytingar á innviðum samfélagsins þýða aukin efnahagsleg umsvif. Kolefnisbinding gæti verið gróðatækifæri fyrir þau fyrirtæki sem starfa í þeim geira – og Íslendingar eru framarlega á því sviði. Rannsóknir á nýjum og hreinlátari iðnaðarferlum gætu leitt af sér ótrúlegar framfarir, bætt loftgæði, og þar bíða ótal viðskiptatækifæri. Það að skipta yfir í rafbíla þýðir að við getum hætt að flytja inn olíu.

Einhver vandi fylgir þessu öllu, auðvitað. Það eru engar galdralausnir til við neinu. Við munum þurfa að prófa ansi margt til að ná tökum á þessu. Það versta er að ég á ekki von á því að samkomulagið í París nái þetta langt. Það mun í besta falli ná að kaupa okkur smá tíma. Það er skárra en ekkert.

Það er betra að verjast en að venjast.