Voter behavior
Til hvers er persónuvernd?
Að vernda málfrelsið
Síðasta hálfa árinu hef ég eytt í að berjast fyrir auknu fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Þetta er frekar undarlegt – ég er hvorki blaðamaður né stjórnmálamaður, ég á ekki neitt í neinum fjölmiðli og í rauninni er mín eina tenging við þetta alltsaman í gegnum hugtakið ”frelsi“.
Ég trúi því staðfastlega að samfélag manna geti ekki starfað öðruvísi en að frjálst og óheft upplýsingaflæði sé á milli manna, og þar gegna fjölmiðlar því veigamikla hlutverki að taka saman flóknar upplýsingar um atburði líðandi stundar á einfaldaðan hátt og skapa grundvöll fyrir málefnalega umræðu. Fjölmiðlar ákveða hvar grunnlínan er, og því ofar sem hún er, því betur mun samfélaginu ganga.
En fjölmiðlum eru ýmsar takmarkanir settar. Víða hvar er fjölmiðlun hreinlega ólögleg, en á Íslandi höfum við stjórnarskrárvarinn tjáningarrétt. “Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða,” segir 73. grein stjórnarskránnar. Þetta er ágætis viðmið sem flestir telja sig geta stutt, en þessi heimspeki, að fólk hafi frelsi til tjáningar, er arfleið frönsku byltingarinnar og þjáist svolítið fyrir það hvað hún er skýr og skynsamleg.
Nútíma réttarríki er hvorki skýrt né skynsamlegt. Allar fullyrðingar þarf að margútskýra fram og aftur til að tryggja að það velkist ekki nokkur í vafa um hvað nákvæmlega er átt við um “tálmanir á tjáningarfrelsi”. Skýrasta dæmið kom nú í haust, þegar lögbann var sett á RÚV til að koma í veg fyrir að þau myndu birta lánabók Kaupþings. Maður hefði haldið að dómarinn væri meðvitaður um að stjórnarskráarákvæðið sem ég vitna í að ofan merki að fyrirfram tálmanir á tjáningarfrelsi séu bannaðar. En svo virðist ekki hafa verið – ýmist það, eða einhverjir aðrir hagsmunir réðu því að hann leit framhjá þessu.
Það er út af þessari þörf á því að skýra út nákvæmlega hvað er átt við með tjáningarfrelsi sem ég ásamt fleirum fórum út í að rannsaka hvaða varnir væru til í hinum ýmsu löndum heims og velja saman rjómann af verndarlögunum til að setja fram sem eina heildstæða tillögu. Við fengum okkur til aðstoðar fólk hvaðanæva úr heiminum til að hjálpa við að finna út hvernig væri best að standa að þessu, og reyndum að finna leið til að Ísland gæti skapað sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.
Erlendir fjölmiðlar æstust algjörlega upp við þetta. Ég hef heyrt útundan mér fullyrðingar um að það hafi ekki verið eins mikill áhugi um þetta erlendis og við höfum sagt, en bara núna á síðasta mánuðnum hef ég verið í viðtali á Áströlskum og Suður-Kóreiskum sjónvarpsmiðlum sem sendu lið til Íslands til að fjalla um þetta. Varla líður sá dagur sem ég fæ ekki e-mail frá einhverjum erlendum
fjölmiðli sem vill ræða við mig um IMMI tillöguna – nú síðast í gær fékk ég póst frá Le Monde. En hvers vegna eru þeir svona æstir? Gæti það hugsanlega verið vegna þess að þeir sjá sína eigin hagsmuni í þessu?
Staðreyndin er sú að fjölmiðlar allsstaðar eiga undir högg að sækja. Þeirra afkoma er alfarið háð því að geta flutt réttar og ýtarlegar fréttir, og þeirra tilgangur er eingöngu helgaður af því að geta komið sannleikanum á framfæri. Þó svo að beinar tálmanir á tjáningarfrelsi fjölmiðla séu ekki alvarlegt vandamál víðast hvar á vesturlöndum er nóg til af óbeinum tálmunum, til dæmis:
- Lögbönn eru víða notuð til fyrirfram tálmunar á útgáfu. Þetta þýðir i reynd að lítið gagn er af því að reyna að eltast við ákveðnar gerðir frétta, þá sérstaklega fréttir um ríka eða valdamikla aðila, því þeir hafa þá næga peninga til að geta ýtt lögbannskröfu í gegn um dómstóla mjög hratt.
- Í Bretlandi er meiðyrðalöggjöfin upprunalega samin til að vernda aðalinn. Fyrir vikið er nánast ómögulegt að verjast meiðyrðamáli í Bretlandi – sönnunarbyrðin er á hinum ákærða, sektin er hans uns hann sannar sakleysi sitt, og hægt er að tefja málið nær endalaust í réttinum með formsatriðum, sem þýðir að það verður gríðarlega dýrt að verjast. Dómsmálin hætta að snúast um réttlæti og byrja að snúast um hvor gefst upp á því að fleygja peningum í vandamálið á undan.
- Þetta einskorðast ekki við Bretland. Í Bandaríkjunum er eingöngu hæstiréttur sem getur útskurðað í samræmi við stjórnarskrá, þannig að öll önnur dómsstig (og af þeim er nóg að taka) þurf að taka mið af lægri lögum. Vegna þess að þau eru ekki jafn sterk og stjórnarskráin þá getur það kostað mikið að verja stjórnarskráarvarinn rétt sinn. Þannig kostaði það Time Magazine sjö milljonir dollara að verjast lögsókn Church of Scientology eftir að þeir birtu forsíðugrein um kirkjuna.
Jafnvel þar sem birting er ágætlega varin eru fleiri hlutir sem geta valdið vandræðum. Það getur til dæmis verið verulegt vandamál ef fólk þorir ekki að tjá sig, vegna ótta um a missa starf sitt, verða fyrir aðkasti, eða jafnvel vera drepið. Öflug heimildavernd er nauðsynleg til að fólk hreinlega hafi dug í sér til að hafa samband við fjölmiðla og koma sannleikanum á framfæri.
Ennfremur er alveg gríðarlega mikilvægt að þeir sem verða varir við spillingu, hvort heldur sé í opinbera geiranum eða gegn hagsmunum almennings á einhvern hátt, geti fengið nauðsynlega vernd ef þau ákveða að koma upp um spillinguna. Slík uppljóstraravernd þekkist mjög víða í heiminum, en bandaríska útgáfan er hugsanlega hvað sterkust. Þar er það svo að sá sem kemur upp um misferli þannig að almannafé sparist getur hlotið 10-15% af upphæðarinnar sem bjargaðist í verðlaun fyrir sitt framlag.
Í grunninn eru þetta bara örfá atriði sem við erum að leggja til að séu lagfærð í lögum á Íslandi, og öll eiga þau sterka fyrirmynd allsstaðar:
- Engin fyrirfram tálmun: íslenska stjórnarskráin, bandaríska stjórnarskráin
- Uppljóstraravernd: bandarísku uppljóstraraverndarlögin (Whistleblower Protection Act)
- Heimildavernd: sænsku prentfrelsislögin (tryckfrihedsforördningen)
- Samskiptavernd: belgísku samskiptaverndarlögin
- Verndun milliliða: evróputilskipun um rafræn viðskipti og kafli 230 í bandarísku samskiptasiðalögunum
- Verndun gagnagrunna og sögulegra heimilda: frönsku gagnagrunnaverndarlögin
- Réttarfarsvernd: California anti-SLAPPs löggjöfin
- Vernd gegn misbeitingu bresku meiðyrðalaganna: New York Libel Terrorism Protection Act
- Upplýsingafrelsislög: norsku og eistnesku útfærslurnar eru nútímalegastar
(Nánari listi neðst)
Á næstu dögum ætla ég að reyna að fara í gegnum hvert þessarra atriða og gera nánar grein fyrir því hvað það er, hvernig það virkar, og hvers vegna það skiptir máli.
Ég ætla líka að reyna að hreinsa upp eitthvað af þeim misskilningi sem fólk hefur um tilgang og eðli þingsályktunartillögunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Stór hluti þess misskilnings virðist vera að ýmsir telja að þetta sé einhverskonar tillaga um að búa til óheft fríríki fyrir Wikileaks. Það er ansi fjarri sannleikanum. Það er svosem ekki neitt launungarmál að ég hef unnið mikið með Wikileaks undanfarna mánuði, og ég þekki starfsemi þeirra nægilega vel núorðið til að fullyrða að það að þessi lög komist í gegn munu fáir fjölmiðlar hafa jafn lítið gagn af þeim og Wikileaks. Þeir hafa dreift sínu kerfi út um allan heim til að nýta sér þær lagalegu varnir sem ég tíundaði að ofan, og það er gjörsamlega út í hött að ætla að þeir færu að flytja starfsemi sína til Íslands að öllu leyti ef þetta kæmist í gegn, það væri hreinlega of hættulegt og í ljósi þess hversu gott og útbreitt kerfi þeir hafa nú þegar, tilgangslaust. Þessi hugmynd er ekki tileinkuð Wikileaks. Hún er tileinkuð öllum hinum fjölmiðlum heims, sem geta ekki varið sig tæknilega eða lagalega á þann hátt sem Wikileaks hefur gert.
En ég mun fara nánar út í það líka á næstunni.