Contents

Allt er í klessu, og við vitum af hverju!

Contents

Marine Le Pen gengur vel í frönsku sveitarstjórnarkosningunum. Donald Trump er tekinn alvarlega. Viktor Orbán er búinn að vera forsætisráðherra í næstum sex ár. Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Ekkert af þessu myndi gerast í heilbrigðu samfélagi.

Hvert sem maður lítur er öfgahægrið að ná miklum árangri. Fólk sem talar af heift gegn útlendingum, gegn þeim sem minna mega sín, gegn fólki sem er að flýja stríð og leita sér að frið.

Ástæðan fyrir því að þessu fólki gengur vel er að öllum öðrum gengur illa. Flestir stjórnmálaflokkar hafa umræðuhefð sem miðar að því að tala í sáttartóni, hlúa að mannréttindum, og leita að lausnum. Ekki síst þegar þau eru við völd. Það liggur á að láta allt líta vel út, jafnvel það sem er í algjörri klessu. Þetta gerir það að verkum að jafnvel þegar raunveruleg vandamál eru til staðar í samfélaginu, þá fer öll umræða um þau vandamál fram undir rós.

Í þægilegustu tilfellunum er slakt gengi gjaldmiðils, lélegur lesskilningur grunnskólabarna eða vond aðstaða í sjúkrahúsum málað upp sem tímabundinn ágalli sem ríkisstjórnin hefur full tök á.

Í verstu tilfellunum ganga menn fram með innistæðulausar fullyrðingar um hvað góðærið sé nú fínt, að enginn sé að flytja úr landi, að það þurfi ekki að hækka laun nema hjá þingmönnum því kaupmáttur sé svo mikill, og þar fram eftir götunum.

Það er hugsanlegt að stjórnmálamenn trúi virkilega því sem þeir eru að segja, þegar þeir segja svona, en það er álíka hugsanlegt að þeir séu fullkomnlega meðvitaðir um hverslags kjaftæði þetta er. Dæmi hver fyrir sig hvort er verra.

Popúlistaflokkar starfa undir öðrum leikreglum, og þá sérstaklega þeir sem hafa tekið sér stöðu á öfgaenda hægrivængsins. Þeir viðurkenna að allt er í algjörri klessu, og jafnvel ganga svo langt að ýkja ástandið allverulega.

En svo gera þeir nokkuð sem enginn sómasamlegur einstaklingur myndi gera: þeir skella skuldinni á einhvern sem getur ekki varið sig.

Flestir öfgahægriflokkar í Evrópu, hvort sem það er UKIP, Front National, Svergie Demokraterna eða Framsóknarflokkurinn, hafa notað nokkurnvegin sömu orðræðuna undanfarin ár:

Öfgahægriflokkar: “Já, allt er í klessu, og við vitum af hverju!”

Grunlaus Pöpull: “Nú, endilega segið okkur!”

ÖHF: “Það eru útlendingarnir. Sérstaklega þessir brúnu. Sérstaklega þessir sem trúa næstum því sama og þið en lesa aðra bók og kalla guðinn öðru nafni. Sérstaklega þeir.”

GP: “Nú? Er það ekki vegna þess að það er búið að slátra heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, gefa ríku vinum ykkar endalausa skattaafslætti, og tortíma hagkerfinu með vafasömum ákvörðunum?”

ÖHF: “Tja, sko, nei. Það væri alltsaman í lagi sjáiði til – en brúna fólkið er að hóta að sprengja okkur í loft upp!”

GP: “Ó. Ókei. En varla þó allir?”

ÖHF: “Klárlega allir. Allt brúna fólkið er sprengifimt. Og þeir vilja búa til sérstök hús þar sem það getur æft sig að kyrja vísur um fjöldamorð og talað illa um… uh. Konur. Já.”

GP: “Ha? Tala þeir illa um konur?”

ÖHF: “Já. Allir. Þeir sko misþyrma þeim. Og þess vegna er hagkerfið okkar ónýtt.”

GP: “Þetta hljómar hrikalega, en útskýrðu aðeins betur hvernig þetta virkar.”

ÖHF: “Já sko, þeir koma til okkar lands og skrá sig á allar bæturnar, tæma þannig úr öllum bótasjóðunum, því þeir eru svo latir, en á sama tíma þá stela þeir öllum störfunum okkar, þannig að þið verðið atvinnulaus. Og svo sprengjur!”

GP: “Jeminn eini! Það verður að stoppa þetta!”

Umræðan er vissulega þó nokkuð fjölyrtari, en álíka vitstola. Gæði röksemdafærsla og skýrleiki hugsunar er ekki mikil hjá því fólki sem samþykkir svona hugmyndir. Það sjá sem betur fer flestir í gegnum þetta kjaftæði að jafnaði, en ekki allir.

Það virðist vera ákveðinn hópur fólks sem getur ekki séð í gegnum svona mykju. Kýs að taka ekki rökum og hundsa staðreyndir. Það er lítið hægt að gera í því að fólk sé svo illa gefið. En eitt er þó hægt að gera: í hvert skipti sem einhver gerist sekur um svona bull, þá er hægt að svara með raunverulega og góða skýringu.

Öfgahægriflokkar: “Já, allt er í klessu, og við vitum af hverju!”

Grunlaus Pöpull: “Nú, endilega segið okkur!”

ÖHF: “Það eru útlendingarnir. Sérstaklega þessir brúnu. Sérstaklega þessir sem trúa næstum því sama og þið en lesa aðra bók og kalla guðinn öðru nafni. Sérstaklega þeir.”

Þú: “Æ vertu ekki svona mikill fáviti, allt er í klessu vegna þess að það er stöðugt verið að taka ákvarðanir sem eru gagnlegar fyrir ríka minnihlutahópa og skella svo skuldinni á fólk sem getur ekki varið sig. Hey, förum og heimtum að mannréttindi gildi jafnt um alla, og finnum svo raunverulegar lausnir á vandamálum samfélagsins!”